Kjör stjórnenda Fjárfestingarbanka atvinnulífsins

Miðvikudaginn 08. mars 2000, kl. 15:53:59 (5083)

2000-03-08 15:53:59# 125. lþ. 75.11 fundur 404. mál: #A kjör stjórnenda Fjárfestingarbanka atvinnulífsins# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., PHB
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 125. lþ.

[15:53]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Skipstjórar á afkastamestu fiskiskipum flotans eru sumir með hærri laun en hér eru til umræðu. Fólk hefur almennt ekki séð ofsjónum yfir þeim tekjum enda mikið í húfi. Stjórnendur og aðrir starfsmenn FBA hafa náð fram hagnaði fyrir fyrirtækið sem nemur að verðmæti eins til tveggja frystitogara á einu ári. Með góðri stjórnun, hugkvæmni og snilli hefur þessi árangur náðst langt umfram væntingar. Eðlilegt er að stjórnendur og starfsmenn njóti þess árangurs en ekki bara hluthafar. Þannig verði þeir hvattir til áframhaldandi árangurs. Umrædd laun stjórnenda FBA eru reyndar ekki til útgreiðslu nema hagnaður haldist og sumir eru að taka mikla áhættu.

Það gagnast ekki öryrkjum eða lágtekjufólki að FBA sé illa rekið og skili ekki góðum hagnaði. Það er einmitt þeim til hagsbóta að fyrirtækið og starfsmennirnir hafi góðar tekjur og borgi af þeim mikla skatta sem renna til velferðarkerfisins m.a. og kemur öryrkjum og lágtekjufólki þannig til góða.