Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 16:19:52 (5239)

2000-03-14 16:19:52# 125. lþ. 78.3 fundur 400. mál: #A Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks# skýrsl, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[16:19]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil gera athugasemd við ræðu hv. þm. Kristjáns Pálssonar. Veiðiskyldunni var ekki breytt í lögum um stjórn fiskveiða. Veiðiskyldan er enn eins og segir í 12. gr. laga:

,,Veiði fiskiskip minna en 50% af samanlögðu aflamarki sínu í þorskígildum talið tvö fiskveiðiár í röð fellur aflahlutdeild þess niður ...``

Þannig að veiðiskyldunni var ekki breytt en framsalsheimildinni var hins vegar breytt og það að tillögu hv. sjútvn. þingsins. Sjómannasamtökin voru ekki sérstaklega ásátt um að það yrði gert. Það var sjútvn. Alþingis sem lagði til að í staðinn fyrir að hafa veiðiskylduna 50% skyldi framsalstakmörkunin vera 50%. (KPál: Þetta er bara sami hluturinn.) Veiðiskyldan er óbreytt, hv. þm. Kristján Pálsson.

Ég heyri á máli hv. þm. að við erum ósammála um mörg grundvallaratriði kvótakerfisins og afleiðingar þess. Ég veit ekki hvort rétt er að fara í langa umræðu um það hér. Ég held hins vegar að eitt sem hv. þm. sagði fái ekki staðist. Hann lét liggja að því í máli sínu að kvótaverð hér á landi væri farið að hafa áhrif á heimsmarkaðsverð á fiski, hefði áhrif til hækkunar á verði á mörkuðum, m.a. á Spáni. Nú held ég að okkur Íslendingum sé svolítið ofætlað hlutverk á heimsmarkaðnum ef íslenska kvótakerfið, þó verðið á framsalinu sé hátt, ráði orðið heimsmarkaðsverði á fiski.

Sem betur fer hafa afleiðingar kvótakerfisins ekki orðið svo víðtækar enn þá og eru þær nægar samt.