Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 16:22:08 (5240)

2000-03-14 16:22:08# 125. lþ. 78.3 fundur 400. mál: #A Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks# skýrsl, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[16:22]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að munnhöggvast við hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson um hvað er veiðiskylda og hvað er framsalsheimild. Það er bara sami hluturinn. Það er ekki heimilt að selja meira en helminginn á hverju ári og þarna varð mikil breyting.

Hv. þm. telur að kvótaverðið hafi ekki áhrif á fiskverð erlendis. Við þekkjum það og ég hygg að hv. þm. viti það vel að á fiskmörkuðunum er í dag nánast beint samband á milli markaðanna og kaupandans úti. Sá sem kaupir hér á fiskmarkaðnum er með símann á eyranu og er í sambandi við kaupanda sinn úti í heimi. Þannig gerast kaupin á eyrinni í dag. Þau eru ekki miðuð við lagerinn í frystigeymslunni eins og var í gamla daga. Þetta gerist á markaðnum sjálfum þar sem ákveðið er hvernig fiskverðið verður þann daginn.

Saltfiskverkendur, sem enn eru reyndar til, sem liggja með þrístaflaðan saltfisk, leggja miklu vinnu í þetta og eiga kannski einhvern lager, verða einfaldlega að kaupa á sama verði og þeir sem eru að flytja út ferskan fisk. Þeir geta ekki boðið lægra verð en aðrir. Það er nú bara staðreynd.