Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 16:55:16 (5249)

2000-03-14 16:55:16# 125. lþ. 78.3 fundur 400. mál: #A Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks# skýrsl, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[16:55]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins gera eina athugasemd og í því sambandi langar mig að vitna í texta sem ég er með undir höndum og er tilvitnun í samantekt sem barst frá Verðlagsstofu alveg nýverið inn á fund í úrskurðarnefnd, en þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Tveir verðheimar fyrir sambærilega vöru er að stærstum hluta afleiðing vankanta í fiskveiðistjórnarkerfinu en ekki hlutaskiptakerfinu, sem þó má endurbæta talsvert. Návígisvandinn virðist enn vera til staðar og fullyrðingar um frjálsan samningsrétt sjómanna stangast verulega á við það sem kemur fram í einkaviðtölum við þá. Fulltrúar sjómanna og útvegsmanna geta því spurt sig þeirrar spurningar hvort raunhæfar framtíðarlausnir byggist á áframhaldandi aðgerðum úrskurðarnefndar, Kvótaþings og Verðlagsstofu eða hvort stokka þurfi spilin upp á nýtt.``

Þetta held ég að sé bara ágætisábending í lok umræðunnar og ég vil beina því til hæstv. sjútvrh. að hann verði sér úti um þennan texta, hann á ábyggilega aðgang að honum, og lesi það sem sett var fram á þessum fundi. Ég vil ekki lesa meira úr viðkomandi plaggi.