Leigulínur til gagnaflutnings

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 14:17:47 (5627)

2000-03-22 14:17:47# 125. lþ. 85.1 fundur 395. mál: #A leigulínur til gagnaflutnings# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[14:17]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir þær upplýsingar sem hér hafa komið fram. Það er gott að heyra að vilji hans er jákvæður í þessum efnum. Ég velti því hins vegar fyrir mér, herra forseti, þegar hæstv. ráðherra segir hvaða leiðir hann sjái fyrir, hvort það dugar eitt og sér. Hæstv. ráðherra segist sjá leiðir hins frjálsa markaðar, samkeppni og svo samskiptatækni. Dugar eitt og sér, segi ég, vegna þess að staðreynd mála er sú að ekki er um samkeppni að ræða alls staðar. Það verður að segja hverja sögu eins og hún er að þar sem samkeppni á sér ekki stað er kvartað. Þar kvarta menn undan því að Landssími Íslands sé eins og hver annar bergþurs. Þetta er því miður svona. Þess vegna nægir ekki að benda á samkeppnina vegna þess að hún er ekki alls staðar til staðar. Hins vegar er það mikið rétt að tæknin breytist mjög hratt og innan fárra ára hygg ég að tæknin verði orðin þannig að menn geti í mun ríkari mæli en nú valið sér það fyrirtæki sem þeir versla við og fengið þá þjónustu sem þeir þurfa á samkeppnishæfu verði. En það er ekki í dag og þess vegna þurfum við að leita leiða til að hjálpa til að ýta undir að sú þróun geti orðið á landsbyggðinni sem ég heyri að ráðherrann vill sjá.

Í máli ráðherrans kom fram að fyrirtæki úti á landi, t.d. á Akureyri, borguðu jafnmikið fyrir sömu lengd á línu. Gott og vel, en menn gátu fyrir nokkrum árum tekið ákvörðun um jöfnun símkostnaðar. Og nú spyr ég: Hvað er á móti því að menn taki slíka ákvörðun þegar þessi tegund síma á í hlut vegna þess að við erum að tala um tækni sem er afskaplega svipuð og hliðstæð?

Mér finnst áríðandi, herra forseti, að þetta komi fram í umræðunni.