Vaxtabyrði heimilanna

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 15:22:01 (5796)

2000-04-03 15:22:01# 125. lþ. 87.1 fundur 415#B vaxtabyrði heimilanna# (óundirbúin fsp.), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[15:22]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Þenslan í þjóðfélaginu er auðvitað mikið áhyggjuefni. Þenslan myndast m.a. vegna þess að kaupmáttaraukning hefur verið geysilega mikil í þjóðfélaginu. Fólk hefur meira úr að spila og eyðir því meira en áður. Við horfum fram á viðskiptahalla sem kannski er upp á 50 milljarða á þessu ári og það er hreint ekkert gleðiefni.

Hvað varðar fasteignagjöldin þá er það ákvörðun ríkisstjórnarinnar að færa fasteignagjöldin til sanngjarnara horfs. En ég legg áherslu á að það þýðir ekki að lækka þau einhliða og færa til raunvirðis nema sveitarfélögunum sem tapa fasteignagjöldum sé bætt það með öðrum hætti. Það er sérstök nefnd að störfum við að skoða fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga undir forustu formanns fjárln., hv. þm. Jóns Kristjánssonar. Eitt af verkefnum hennar er að finna út hvernig hægt er að komast út úr þessum vandræðum með fasteignagjöldin.