Breytt staða í álvers- og virkjanamálum

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 16:04:57 (5821)

2000-04-03 16:04:57# 125. lþ. 87.95 fundur 422#B breytt staða í álvers- og virkjanamálum# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[16:04]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Hér eru til umræðu breyttar aðstæður í virkjana- og stóriðjumálum. Fyrir mér er málið þannig vaxið að nú liggur fyrir að vinna að þessu máli í samræmi við þær aðstæður. Þarna er um að ræða risavaxið framtíðarverkefni fyrir Austurland. Málið er engan veginn á byrjunarreit eins og hér hefur verið haldið fram. Ef þessi áform sem nú eru uppi ganga fram þá er hér um að ræða auðlindanýtingu sem er flókin og þarf mikinn undirbúning. Aðalatriðið er þó að missa ekki sjónar af takmarkinu þó að aðstæður breytist.

Það er endalaust hægt að leggjast í þrætubók um fortíðina, t.d. um hvaða áhrif sá áróður sem uppi hefur verið hafður í málinu hefur haft á fjárfesta. Fyrir mér skiptir það ekki höfuðmáli. Fyrir mér er aðalmarkmiðið að hugsa um framtíðina.

Vissulega mun í næsta hring í umræðunni talað um að framkvæmdirnar passi ekki fyrir Austurland, þar væri nær að leggja vegi, byggja háskóla og hátæknifyrirtæki og efla ferðaþjónustu. Þetta eru allt góð verkefni en það er hægt að vinna að þessu öllu saman óháð því hvort fjárfest verður í álverksmiðju á Reyðarfirði. Hins vegar eykur framleiðslustarfsemi af þessu tagi þjóðartekjurnar og aukning þjóðartekna og hagvöxtur hleypir lífi í aðra uppbyggingu. Þetta eru margsagðar staðreyndir í þessu máli.

Það er rangt sem hér var haldið fram af upphafsmanni þessarar umræðu, að ákvörðun um stóriðju á Austurlandi hafi verið kollvarpað. Aðstæður hafa breyst og það verður að vinna í samræmi við nýjar aðstæður. Það skiptir mestu máli fyrir Austfirðinga og aðra landsmenn að halda ótrauðir áfram við verkefnið og fá niðurstöðu um framhaldið. Það er fráleitt að þessi áform verði til að koma í veg fyrir aðra atvinnuuppbyggingu á Austurlandi og séu skilaboð til fólks um að pakka niður og hafa sig burt.