Breytt staða í álvers- og virkjanamálum

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 16:13:57 (5825)

2000-04-03 16:13:57# 125. lþ. 87.95 fundur 422#B breytt staða í álvers- og virkjanamálum# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[16:13]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ein meginundirstaða þeirra framfara sem orðið hafa í íslensku samfélagi á þessari öld er að þjóðin hefur nýtt þá orku sem býr í landinu. Íslendingar eru svo lánsamir að búa yfir meiri vistvænni orku en nokkur önnur þjóð í veröldinni. Spurningin er hins vegar hvort og hvernig við viljum beisla þá orku. Það er nefnilega svo að verðmæti orkunnar verða til þegar hún er beisluð.

Hins vegar má einnig vera ljóst, herra forseti, að slík beislun kostar fórnir. Það gildir í raun um öll mannanna verk, hvort heldur eru húsbyggingar, vegalagnir, hafnarmannvirki og þannig mætti áfram telja. Allt kostar þetta ákveðnar fórnir og árekstra við umhverfið og náttúruna. Þar þurfum við að velja meiri hagsmuni fyrir minni. Niðurstaðan byggir ávallt á atvinnulífi, efnahagslífi og byggðasjónarmiðum og ekki síst velferðarkerfinu, en það byggir jú á því að verðmætasköpun eigi sér stað.

[16:15]

Ég er sjálfur enn þeirrar skoðunar að skynsamlegast hefði verið að byrja á 120 þús. tonna álveri. Þau eru hagkvæm og nægir að vísa til Norðuráls, sem hefur verið starfrækt hagkvæmt á 60 þús. tonnum og er núna að fara upp í 90 þús. tonn. Með því að byrja smátt er auðveldara að sjá umhverfisþáttinn og meta síðan áhrif hans áður en næstu skref eru stigin og með því að byrja smátt er hægt að hafa fyrr áhrif á byggðarlög, á efnahagssjónarmið o.s.frv. Í staðinn hefur með málflutningi og bænarskjali til konunga, tekist að laða fram umræður og áætlanir um stærri álver í fyrsta áfanga. Nú er mikilvægt að menn stígi á stokk og svari skýrt hvort þeir vilji yfir höfuð virkja eður ei, hvort þeir vilji stöðva orkunýtingu. Nú þurfa menn að tala skýrt og hætta hálfvelgju. Munu menn una þeirri niðurstöðu sem kemur af þeirri umræðu sem er nú byrjuð eða munu þeir færa málflutning sinn í annan búning?