Fjármálaeftirlit

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 17:09:38 (5837)

2000-04-03 17:09:38# 125. lþ. 87.3 fundur 199. mál: #A fjármálaeftirlit# (breyting ýmissa laga) frv. 11/2000, Frsm. VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[17:09]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má segja að í umfjöllun nefndarinnar hafi bæði þessi mál verið opin þegar verið var að fjalla um stjórnarfrv. Efnislega fjallar kannski frv. Samfylkingarinnar mikið um annars vegar eftirlitsheimildir og sektarákvæði. Í stjórnarfrv. var verið að styrkja eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins og enn fremur að gefa eftirlitinu möguleika á að skipa sérfræðinga til athugunar á tilteknum þáttum. Eins fær eftirlitið ríkari heimildir til þess að gera sérstakar athuganir á starfsstað. Þau mál gengu því mjög í sömu átt.

Ég gat áðan í framsögu minni um nýtt ákvæði um févíti sem er í stjórnarfrv. sem kemur til móts við hugmyndir um auknar sektarheimildir. Nefndin dró reyndar aðeins úr heimildum sem fyrirhugað var að setja samkvæmt frv. en ég hygg að við þetta geti allir unað.

Síðan vil ég segja að nefndin gerir brtt. um sérstakar verklagsreglur sem vátryggingafélög og lífeyrissjóðir eiga að setja. Það var mjög í anda þess sem Samfylkingin ræddi um í meðferð málsins. Síðast en ekki síst er núna gert ráð fyrir því að viðskrh. leggi á þingi árlega fram skýrslu um starfsemi eftirlitsins og það var atriði sem þingmenn Samfylkingarinnar í nefndinni lögðu áherslu á.