Fjármálaeftirlit

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 17:26:05 (5840)

2000-04-03 17:26:05# 125. lþ. 87.3 fundur 199. mál: #A fjármálaeftirlit# (breyting ýmissa laga) frv. 11/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[17:26]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Þegar þau mál sem þetta frv. tekur til komu til umræðu á þinginu í haust hafði ég þau orð að það væri mjög líklegt, ég teldi mjög miklar líkur á því að unnt yrði að skapa breiða pólitíska samstöðu um breytingar á lögum um fjármálaeftirlit í landinu. Samkvæmt því frv. sem hér liggur fyrir hefur það í stórum dráttum tekist. Enda er það svo að allir nefndarmenn í efh.- og viðskn. skrifa undir nál., þrír að vísu með fyrirvara. Ég er einn þeirra sem skrifa undir nál. með fyrirvara og ætla í örstuttu máli að gera grein fyrir því hvers vegna ég geri það. Fyrst hvers vegna ég styð þetta frv.

Frv. eða lögin, þegar þau koma til sögunnar, munu styrkja starfsheimildir Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitinu er betur tryggður aðgangur að gögnum og upplýsingum og eykur möguleika Fjármálaeftirlitsins á því að gegna eftirlitshlutverki sínu.

Síðan um þau atriði sem ég hef miklar efasemdir um, þá er það í fyrsta lagi hvað snertir févíti og dagsektir. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið geti ákvarðað dagsektir sem geta numið frá 10 þús. kr. til 1 millj. kr. en að auki getur Fjármálaeftirlitið lagt févíti á eftirlitsskylda aðila sem brjóta gegn ákvörðunum sem teknar hafa verið af Fjármálaeftirlitinu, og geta þær sektir eða févíti numið frá 10 þús. kr. til 2 millj. kr. Slíkum ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins er unnt að vísa til kærunefndar, úrskurðarnefnar, sem skipuð er af Hæstarétti eða tilnefnt er í samkvæmt ábendingum frá Hæstarétti, því það mun vera ráðherra sem gengur frá skipuninni. Sú úrskurðarnefnd getur síðan hnekkt ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins. En þrátt fyrir þennan fyrirvara hef ég mjög miklar efasemdir um að framkvæmdarvaldinu, eða framkvæmdaraðila eins og Fjármálaeftirlitinu, sé fengin sú heimild í hendur að leggja á sektir. Að þessu leyti tek ég undir gagnrýni sem kom fram í umræðunni á undan frá hv. þm. Pétri H. Blöndal.

Önnur atriði sem ég vil gera athugasemdir við snerta upplýsingaskylduna. Þar eru gerðar breytingar frá því fyrirkomulagi sem nú er við lýði og er þær að finna í 6. gr. frv. og brtt. sem síðar komu fram við þá grein. En þar segir, með leyfi forseta:

,,Upplýsingar sem háðar eru þagnarskyldu samkvæmt lögum sem gilda um eftirlitsskylda aðila eru háðar sambærilegri þagnarskyldu þegar þær hafa verið afhentar Fjármálaeftirlitinu.``

Þannig er komist að orði í brtt.

[17:30]

Um hvað snýst þetta mál? Jú, við höfum hér dæmin fyrir okkur. Í haust komu upp tvö dæmi þar sem fréttamenn, í öðru tilvikinu fréttamaður Morgunblaðsins kærði synjun Fjármálaeftirlitsins um að veita honum aðgang að öllum bréfum sem farið höfðu á milli Fjármálaeftirlitsins og fyrirtækisins Orca SA frá því fyrr um haustið. Og í úrskurði kærunefndarinnar var þessari ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hnekkt og því gert að veita blaðamanni Morgunblaðsins umbeðnar upplýsingar.

Hitt tilvikið sem ég vildi vitna í snertir Lífeyrissjóð Vestfirðinga og Lífeyrissjóð Vestmannaeyja vegna fjárfestinga þeirra í hlutabréfum fyrirtækja í heimabyggð sjóðanna. Að þessu sinni var það Jón Birgir Pétursson, blaðamaður á DV, sem kærði til úrskurðarnefndar synjun Fjármálaeftirlitsins um umbeðnar upplýsingar.

Á hvaða grundvelli kvað kærunefndin upp sinn úrskurð? Hún kvað sinn úrskurð upp á grundvelli upplýsingalaga sem taka til opinberrar stjórnsýslu, opinberra stofnana á borð við Fjármálaeftirlitið. Það gilda mun rýmri reglur eða strangari ákvæði, eftir því hvernig menn vilja líta á málin, gagnvart opinberum aðilum en einkaaðilum um upplýsingaskyldu. Og það var á grundvelli þess sem tókst að knýja Fjármálaeftirlitið til að láta umbeðnar upplýsingar af hendi.

Núna er sú breyting gerð á að það er sett inn í lögin ákvæði þess efnis að Fjármálaeftirlitið skuli háð þagnarskyldu þrátt fyrir að stofnunin sé opinber stofnun sem heyrir undir upplýsingalög. Þetta er breytingin. Það eru ákveðin rök fyrir þessari breytingu, vissulega, að sömu lögmál skuli gilda um upplýsingar hvar sem þær eru í kerfinu, þ.e. hvar sem þær eru í kerfinu þá beri sömu lög að gilda um upplýsingarnar.

Þegar stofnanir eða fyrirtæki sem sýsla með peninga eru kærðar til Fjármálaeftirlitsins þá er það hins vegar iðulega svo að þær eru jafnframt í opinberri umræðu og ég er almennt fylgjandi því sjónarmiði að sú umræða eigi að vera eins opin og gerlegt er. Ég held að það sé óhætt að segja að í báðum þeim tilvikum sem ég vitnaði til varðandi Orca-hópinn annars vegar og síðan lífeyrissjóðina hins vegar þá hafi það verið til góðs að fá þessi mál upp á yfirborðið og gögnin reidd fram.

Hins vegar finnst mér það engan veginn einhlítt mál hvað beri að gera í þessu. Mér finnst það engan vegin einhlítt. Ég hef hins vegar ákveðið að taka afstöðu með Blaðamannafélaginu í þessu máli og styðja þeirra sjónarmið einfaldlega vegna þess að ég er því fylgjandi að upplýsingar séu allar uppi á borði og að sem allra minnst leynd sé yfir þeim, ekki síst þegar um er að ræða stór fjárfestingarfyrirtæki og fjárreiður þeirra.

Þetta voru þau atriði sem ég vildi koma á framfæri í tengslum við þessa umræðu. Ég hef miklar efasemdir og geri fyrirvara varðandi dagsektir og févíti og einnig varðandi þessa grein sem lýtur að upplýsingaskyldunni.