Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 14:29:27 (6558)

2000-04-13 14:29:27# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[14:29]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég geri mér alveg grein fyrir því að sú tillaga sem hv. þm. var að vísa til er ekki um það að taka sjálfstæða ákvörðun. Hins vegar var ég að vísa til þess að það fólk sem hefur viljað sleppa við að beita sér af því að samtök eins og Sameinuðu þjóðirnar hafi ákveðið eitthvað og talið það sitt eina vopn í erfiðri stöðu, þá eru það orðin sem maður fær oft að heyra að það sé nú erfitt að þykjast vera miklu betri af því að hinir hafi ákveðið það o.s.frv. Ég var kannski að vísa til slíkrar umræðu.

Ég veit ekki hvort það er verra eða betra fyrir hæstv. utanrrh. að hafa formlega afgreidda tillögu héðan frá þinginu að veganesti. Hitt er annað mál að ég held að þeir séu fleiri og fleiri, bæði á Alþingi og utan þings, sem mundu vilja sjá utanrrh. sinn verða sú rödd mannréttinda, eins og ég hef oft talað um, og bregða fyrir sig þeirri rödd í þessu sérstaka máli. Ég hvet því enn á ný til þess, hvort sem tillagan kemur hingað inn til afgreiðslu eða ekki, að hæstv. ráðherra taki þetta upp þar sem hann á þess kost og tali fyrir þessu mannréttindamáli þar sem hann getur.