Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 14:52:50 (6563)

2000-04-13 14:52:50# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[14:52]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessi svör hæstv. ráðherra. Það er fullkomlega eðlilegt að Evrópusambandið og það sem er að gerast þar, ekki síst á sviði öryggis- og varnarmála, taki aukinn tíma taki mikinn tíma hjá utanríkisþjónustunni. Það er fullkomlega eðlilegt og það hlýtur Evrópusamstarfið að gera bara nú heldur í komandi framtíð. Það er alveg ljóst. Og ekki hvað síst þess vegna hljótum við að fagna þeirri skýrslu sem hæstv. ráðherra hefur dreift á Alþingi og tekin verður til sérstakrar umræðu vegna þess að það er gjörsamlega óþolandi að við hér á Alþingi tökum ekki virkan þátt í þessari umræðu sem er að eiga sér stað alls staðar í Evrópu. Við hér höfum ekki tekið ákvörðun. Við höfum hvorki sagt af eða á hvort við ætlum að vera með í þessu samstarfi og þá hvernig. Hvernig við ætlum að undirbúa okkur? Ef til þess kæmi að við tækjum þátt í slíku samstarfi hverjar verða þá kröfurnar sem við setjum fram í einstökum málaflokkum? Ég tel að skýrsla ráðherra sé ágætis grunnplagg til þess að fara út í þá umræðu.

En fleiri atriði voru nefnd í þessari skýrslu, t.d. innra öryggi og það kemur m.a. fram að meta þurfi raunverulegar hættur sem Íslandi, þar með töldu stjórnkerfi og mannvirkjum, kynni að stafa af hermdar- og hryðjuverkastarfsemi, skipulagðri glæpastarfsemi og útbreiðslu gereyðingarvopna. Mikilvægt er að stjórnvöld hafi sem mesta burði til að fylgjast með og bregðast við starfsemi öfgahópa í samstarfi við önnur ríki og haldi áfram uppbyggingu sérsveita lögreglunnar. Með aukinni ábyrgð Íslands á alþjóðavettvangi, t.d. með hugsanlegri aðild að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, eins og kom fram í skýrslu hæstv. ráðherra, kynni athygli að beinast að Íslandi á annan hátt en Íslendingar hafa vanist. Huga þarf sérstaklega að innra öryggi í landinu í fyrirsjáanlegri framtíð. Er þetta það sem við höfum verið að gera?