Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 16:21:34 (6582)

2000-04-13 16:21:34# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[16:21]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er satt að segja ekkert undrandi á því að hv. þm. sé á fljúgandi flótta í þessu máli og sé raunar á floti í málflutningi sínum í þessum efnum. Ég spyr hann beint: Er hann ekki sammála okkur jafnaðarmönnum í Evrópu í okkar hreinu og beinu og kláru afstöðu gegn Haider-stjórninni og klárum yfirlýsingum okkar í þá veru að tilhneigingar af þessum toga verði að stöðva í fæðingu?

Hægri menn ýmsir hafa velt því fyrir sér hvort Evrópusambandið hafi gengið of langt og að þær aðgerðir og yfirlýsingar sem Evrópusambandið hefur beitt sér fyrir séu íhlutun í innanríkismál Austurríkis. Ég er því ósammála. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að við lýðræðissinnar þurfum kröftuglega að taka á því að svona tilhneigingar nái ekki að festa rætur í Evrópu. Og ég undirstrika að það var meginefni þessa fundar sem ég vitnaði til og hv. þm. gat um af hálfu flokksbróður míns í þýska sambandsþinginu að ótti hans við smitun, sérstaklega til nýfrjálsra ríkja í Austur-Evrópu, var stærsta hættan. Og þess vegna ekki síst --- og þeir ættu nú að vita það best Þjóðverjarnir --- væri mikilvægt að taka á þessu strax í fæðingu og gera Austurríkismönnum og öðrum ljóst að slíkir öfgahópar fengju ekki frið til að vaxa og dafna með þeim hætti sem menn þekkja allt of vel í sögunni.

Kjarni málsins er þessi: Eru vinstri grænir og talsmaður þeirra hér eitthvað tvístígandi í afstöðu sinni? Það er kjarni málsins. Við erum það ekki, jafnaðarmenn.