Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 17:19:33 (6593)

2000-04-13 17:19:33# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[17:19]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki venjan í mikilvægum alþjóðlegum samningum, síst af öllu í öryggis- og varnarmálum, að segja nákvæmlega fyrir um það hvað við ætlum að segja. Okkur finnst eðlilegt að það bíði þess að formlegar viðræður hefjist og ég vænti þess að hv. þm. hafi fullan skilning á því. Það er enginn losararagangur í því. Því getur hv. þm. treyst.

Aðalmarkmið okkar er að sjálfsögðu að aðalöryggismálum okkar sé sinnt með fullnægjandi hætti, bæði að því er varðar Ísland og að öryggishagsmuna Íslands sé gætt og öryggishagsmuna Atlantshafsbandalagsins, öryggishagsmunatengslanna yfir Atlantshafið. Þetta er ekki aðeins spurningin um Ísland, þetta er spurningin um Atlantshafsbandalagið í heild sinni og það eru aðalmarkmið okkar.

Það liggur alveg ljóst fyrir að það var skoðun okkar í síðustu samningum að til að þessara öryggishagsmuna sé gætt með fullnægjandi hætti þarf viðveru þeirra flugvéla sem eru á Keflavíkurflugvelli, bæði að því er varðar orustuþoturnar, að því er varðar björgunarsveitina og að því er varðar kafbátaleitarvélarnar. Þetta er sú aðalstarfsemi sem á sér þarna stað fyrir utan þá einföldu staðreynd að það eru nýjar hættur víða í heiminum eins og hryðjuverkastarfsemi, glæpastarfsemi og margvísleg önnur vá sem þarf að taka tillit til innan allra þjóða Atlantshafsbandalagsins.