Alþjóðaþingmannasambandið 1999

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 18:36:30 (6603)

2000-04-13 18:36:30# 125. lþ. 101.3 fundur 367. mál: #A Alþjóðaþingmannasambandið 1999# skýrsl, EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[18:36]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég fylgi úr hlaði með örfáum orðum skýrslu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 1999. Ég vil áður en að því kemur þakka hæstv. utanrrh. fyrir afar greinargóða, áhugaverða og fræðandi skýrslu um utanríkismál.

Það sem einkennir starf Alþjóðaþingmannasambandsins og sker sig kannski dálítið úr starfi annarra þeirra alþjóðlegu samtaka sem alþingismenn eiga aðild að eða taka þátt í er hið alþjóðlega yfirbragð samtakanna. Hér er um að ræða samtök sem starfa á hnattrænum grundvelli eða hnattrænum vettvangi ef svo mætti að orði komast. Aðild að Alþjóðaþingmannasambandinu eiga 139 þjóðþing, auk aukaaðila sem eru fimm svæðisbundin þingmannasamtök. Þetta setur heilmikinn svip á samtökin og starf þeirra. Þetta gerir það að verkum að þing samtakanna eru haldin víða um heim og að umræðuefni sem Alþjóðaþingmannasambandið tekur fyrir hverju sinni eru mjög alþjóðlegs eðlis. Þau eru oft á tíðum kannski framandi fyrir okkur sem komum úr þessum heimshluta en eru hins vegar mjög áríðandi fyrir þá alþjóðlegu umræðu sem sífellt færist í vöxt með því að heimurinn er stöðugt að dragast saman vegna þess að samskiptin verða auðveldari.

Að þessu sinni voru bæði þingin á árinu 1999 haldin í Evrópu. Alþjóðaþingmannasambandið heldur tvö ársþing, þ.e. haust og vor, og að þessu sinni var vorþingið haldið í Brussel en haustþingið í Berlín. Það sem setti nokkurn svip á vorþingið hvað áhrærði okkur var nálægð alþingiskosninganna, sem gerði það að verkum að mjög fáir þingmenn höfðu tækifæri til þess að sækja þingið heim. Okkur var það hins vegar mikill heiður að þáv. forseti Alþingis, Ólafur G. Einarsson, sótti þingið auk forstöðumanns almennrar skrifstofu, Þorsteins Magnússonar, sem var þá starfandi ritari Íslandsdeildarinnar.

Alþjóðaþingmannasambandinu er núna sem stendur allmikill vandi á höndum vegna þess að Bandaríkjamenn hafa tekið um það ákvörðun að taka ekki fullan þátt í starfi þess og hafa skirrst við að inna af hendi eðlilegar greiðslur til sambandsins. Það gefur augaleið að fyrir samband þingmanna sem byggir fjárhagslegan grundvöll sinn fyrst og fremst á hlutfalli af þjóðarframleiðslu, er það mjög mikið áfall að ríkasta þjóð heims skuli kjósa að starfa innan samtakanna með hálfum huga og ekki einu sinni það. Það er ljóst mál að samkvæmt reglum sambandsins mun koma að því fyrr en síðar, og væntanlega þegar á næsta þingi, að Bandaríkjamönnum verði samkvæmt reglunum vísað úr samtökunum. Þetta er auðvitað heilmikið áfall fyrir það alþjóðlega samstarf sem þarf að vera meðal þingmanna í heiminum en er á vissan hátt lýsandi fyrir einangrunarstefnu og kannski að hluta til þjóðerniskennd sem öðru hvoru og allt of víða skýtur upp kollinum meðal bandarískra þingmanna og gerir það að verkum að þeir kjósa ekki að taka þátt í starfi af þessu tagi þar sem hlutur þeirra er ekki sterkari en raun ber vitni.

Hlutverk Alþjóðaþingmannasambandsins er m.a. að fylgjast með þróun mála á alþjóðavísu og þess vegna eru umræðuefnin mjög því marki brennd sem eðlilegt er. Á fundinum í Brussel var fjallað um aðgerðir til að hvetja þjóðir heims til að undirrita samninginn um allsherjarbann við tilraunum með kjarnorkuvopn, vandamál stórborga og aðgerðir til að afskrifa skuldir fátækustu þjóða heims.

Á fundinum í Berlín var hins vegar rætt um tvö höfuðmálefni, annars vegar framlag þjóðþinga til að tryggja virðingu fyrir mannúðarlögum í tilefni af því að 50 ár voru þá liðin frá samþykkt Genfar-sáttmálanna og hins vegar um breytingar á alþjóðahagkerfinu.

Til viðbótar þessu og við þá starfsemi sem er í kringum þingið starfar Alþjóðaþingmannasambandið að mörgum öðrum málum. Í því sambandi vil ég sérstaklega vekja athygli á því að sambandið hefur nýlega gefið út bækling um mannúðarlög fyrir þingmenn og Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins, IPU, hefur óskað eftir því að fá eintök til að dreifa til allra þingmanna.

Til viðbótar þessu hafa samtökin beitt sé fyrir gerð leiðbeininga varðandi kosningar og framkvæmd þeirra. Við sjáum að nýfrjáls ríki eru oft á tíðum mjög vanmegnug til þess að halda utan um sínar eigin kosningar af eðlilegum ástæðum þar sem lýðræðishefðin er mjög veik og Alþjóðaþingmannasambandið hefur einkanlega beitt sér í þeim efnum, auk þess sem samtökin hafa fylgst mjög með afdrifum þingmanna á þjóðþingunum sem víða eiga undir högg að sækja þar sem um harðstjórn er að ræða og árlega eða á hverju þingi er flutt skýrsla um stöðu þingmanna í þessu samhengi.

Mikill áhugi hefur verið hjá Alþjóðaþingmannasambandinu að auka samstarfið við Sameinuðu þjóðirnar. Ég átti þess kost þegar Desai, aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kom hingað til lands að ræða við hann fyrir hönd utanrmn. Alþingis og þá bar þessi mál á góma og kom fram að gagnkvæmur áhugi væri af hálfu Sameinuðu þjóðanna. Ég legg mikla áherslu á að alþjóðleg þingmannatengsl af þessu tagi séu efld og samstarf þingmanna sé eflt og styrkt ekki síst í samhengi við starfsemi Sameinuðu þjóðanna sem vinnur á sambærilegum grundvelli að því leyti að hér er um að ræða alþjóðleg samtök. Ég tel því mjög mikilvægt að þingmenn Alþingis hafi tækifæri til þess að taka þátt í einstökum fundum sem efnt er til með þátttöku Alþjóðaþingmannasambandsins og með tilstyrk Sameinuðu þjóðanna og stjórnvalda í aðildarríkjunum.

Virðulegi forseti. Með þessum orðum vildi ég fylgja úr hlaði umræddri skýrslu sem fer yfir þau helstu verkefni sem tekin voru fyrir á þeim fundum sem haldnir voru á sl. ári. Ég vil þakka samnefndarmönnum mínum í Alþjóðaþingmannasambandinu, hv. þm. Ástu Möller og Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrir mjög gott samstarf og einnig þeim þingmönnum sem störfuðu með okkur á síðasta kjörtímabili, enn fremur starfsmönnum Íslandsdeildarinnar, þeim Þorsteini Magnússyni, síðar Elínu Flygenring og loks núverandi starfsmanni Belindu Theriault fyrir einkar gott, farsælt og ánægjulegt samstarf.