Skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 11:48:34 (6989)

2000-05-08 11:48:34# 125. lþ. 107.1 fundur 614. mál: #A skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi# skýrsl, SJS
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[11:48]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð fagnar því tækifæri til að ræða Evrópumál sem skýrsla utanrrh. býður upp á. Okkur hefur ekki verið og er ekki neitt að vanbúnaði að ræða málið og við höfum í þessum efnum fastmótaða og skýra stefnu.

Ég vil í því sambandi minna á tillögu okkar um stefnu Íslands í alþjóðasamskiptum en þar segir í tillögugrein, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að hagsmuna Íslands verði best gætt með því að landið standi utan efnahagsbandalaga og ríkjasambanda en hafi við þau sem besta samvinnu með sérsamningum án aðildar. Þannig verði sjálfstæð og óháð staða landsins nýtt til að treysta samskiptin við ríki og markaði beggja vegna Atlantshafsins og við aðra heimshluta.

Vegna EES-samningsins og annarra framtíðarsamskipta við Evrópusambandið verði af Íslands hálfu leitast við að þróa þau í átt til tvíhliða samninga um viðskipti og samvinnu.`` --- Og að lokum:

,,Alþingi ályktar að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka til að vinna með ríkisstjórninni að nánari útfærslu slíkrar stefnumótunar.``

Við erum þeirrar skoðunar, herra forseti, að óvissuástand í þessum efnum skaði hagsmuni Íslands. Við leggjum til að Alþingi og ríkisstjórn taki af skarið og móti þá stefnu að við ætlum að gæta hagsmuna okkar án aðildar að Evrópusambandinu eða öðrum slíkum viðskiptablokkum eða ríkjasamböndum en með góðum samningum og samskiptum við þau í allar áttir. Þá geta allir málsaðilar gengið út frá því hvort sem heldur er utanríkisþjónustan, ráðuneyti og stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök. Endalausar vangaveltur fram og til baka og hálfkveðnar vísur verka eingöngu truflandi. Það liggur í öllum aðalatriðum allt fyrir sem liggja þarf fyrir í þessum efnum, eins og ég kem að síðar.

Í öðru lagi vil ég segja um skýrsluna, herra forseti, að ég fagna henni og ég tel hana í öllum aðalatriðum hlutlæga og efnislega vel unna. Ég get að vísu tekið undir með nýkjörnum formanni Samfylkingarinnar, hverjum ég nota tækifærið og árna heilla, að ráða mátti af ræðu hæstv. utanrrh. áðan að hann væri, ef svo má að orði komast, að meðaltali jákvæðari í garð aðildar að Evrópusambandinu en höfundar skýrslunnar eða einstakra kafla hennar.

Mér finnst helst, herra forseti, mega að því finna að í skýrslunni gætir óþarfa mærðar í garð EES-samningsins. Vissulega hafa viðskiptaþættir hans nýst okkur að mörgu leyti vel en við höfum líka borgað fyrir, við höfum greitt með veiðiheimildum, við höfum borgað í þróunarsjóð og verið þvinguð til að gera það áfram þvert ofan í ákvæði samningsins. Þar eru það e.t.v. ekki fjármunirnir sem eru aðalatriðið heldur vinnubrögðin.

Deilur um það hverjir hafi haft rétt fyrir sér og hverjir ekki þegar EES-samningurinn var hér til meðferðar á sínum tíma eru það sem oft er kallað í breskum stjórnmálum ,,orrusta gærdagsins``. Það eru deilur um liðna atburði sem hafa ekki mikið upp á sig vegna þess að það þýðir lítið að ræða pólitíska sögulega atburði í þáskildagatíð, herra forseti. Við höfum ekki samanburðinn við það sem ella hefði orðið. Þess vegna eru vangaveltur af því tagi ,,ef, ef, ef þetta eða hitt`` árum eða áratugum aftan við okkur í sögunni ekki mjög frjóar í sjálfu sér sem innlegg í mat á pólitískri stöðu líðandi stundar.

Það langmikilvægasta við þessa skýrslu, herra forseti, er að fyrir utan að vera ágætt yfirlit og kortlagning á stöðunni tel ég að hún hrekji algjörlega þann málflutning að við Íslendingar þurfum að sækja um aðild að Evrópusambandinu til að vita hvað okkur bjóðist. Slíkt tal er afvegaleiðandi. Það liggur í öllum megindráttum fyrir hvaða afleiðingar það hefur að ganga í Evrópusambandið, skýrslan sýnir það. Reynsla annarra gerir það líka.

Hvað fengu Norðmenn til að mynda á sviði sjávarútvegsmála þegar þeir reyndu í annað sinn að semja sig inn í Evrópusambandið? Þeir fengu tímabundna aðlögun frá sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni, tímabundna aðlögun eingöngu fyrir fiskimiðin norðan 64. breiddargráðu, það var allt og sumt. Voru þó Norðmenn í gífurlega sterkri samningsstöðu því allir vissu að til þess að von ætti að vera um að samningur fengist þar samþykktur yrði hann að vera eins jákvæður og líta eins vel út og nokkur kostur væri. Samt var hann felldur.

Herra forseti. Ég tel mjög mikilvægt að þetta komist skýrt á framfæri, að höfundar skýrslunnar treysta sér til þess í öllum aðalatriðum að segja fyrir um hvað yrði aðild samfara. Stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum er því ekkert að vanbúnaði að tala skýrt um vilja sinn til aðildar eða ekki aðildar að Evrópusambandinu sem stefnumarkmið fyrir okkur til fyrirsjáanlegrar framtíðar litið. Við eigum, herra forseti, í stórmáli af þessu tagi að reyna að tala eins skýrt og okkur er nokkur kostur. Talið um að við þurfum að sækja um til að vita hvað okkur bjóðist er eingöngu til að slá ryki í augu fólks. Talið um að við þurfum að ræða mál sem hefur stanslaust verið til umræðu á Íslandi í yfir áratug þjónar sama tilgangi. Nema hvað? Auðvitað fylgjumst við með þróun þeirra mála eins og annarra hluta sem varða utanríkishagsmuni okkar. Einnig það eru engin tíðindi og engin speki að við Íslendingar þurfum að hafa meðvitund í þessum efnum. Ég tel það ámælisverða við slíkar æfingar, herra forseti, vera að með því eru menn að koma sér undan því að tala skýrt og maður óttast auðvitað að á ferðinni séu gamalkunnugar yfirbreiðslur, ætlaðar til þess að lokka menn áfram inn. Að um sé að ræða formúluna gömlu frá Norðurlöndunum en hún gekk út á þetta. Í fyrsta lagi var sagt: Við þurfum að sækja um til að athuga hvað okkur bjóðist. Í öðru lagi var farið af stað í könnunarviðræður. Í þriðja lagi, herra forseti, breyttust þær könnunarviðræður allt í einu yfir í samningaviðræður, og í fjórða lagi var valin sú aðferð að greiða fyrst atkvæði í því Norðurlandanna þar sem fyrir lá samkvæmt skoðanakönnunum að langmestar líkur voru á að aðildin yrði samþykkt. Eftir að Finnar höfðu samþykkt aðild jókst stuðningur við aðild í Svíþjóð af skiljanlegum ástæðum. Og þá í nokkra mánuði komst á meirihlutastuðningur fyrir aðild í Svíþjóð í fyrsta og eina skiptið. En hann dugði til að koma Svíum inn og í framhaldinu var ætlunin að Norðmenn teldu sig nauðbeygða til að segja líka já en það gerðu þeir ekki.

Nei, herra forseti, við skulum reyna í stórmáli af þessu tagi að tala eins skýrt og efnislegar forsendur leyfa og heiðarlega um það sem fyrir okkur vakir. Mér virðast stuðningsmenn aðildar að Evrópusambandinu aðallega nota tvær höfuðröksemdir. Þau fyrri kalla ég nauðhyggjurökin; að EES sé á fallandi fæti, að Norðmenn kunni e.t.v. að ganga inn, að við verðum nauðbeygð til að gera það. Það er jafnvel orðað svo að við neyðumst til að taka það til athugunar að sækja um aðild að Evrópusambandinu af mönnum sem vilja þó ganga þangað inn, og hví er það þá slík nauðung? Eða þá að allir aðrir séu að gera þetta eða flestir aðrir og þess vegna hljótum við að gera það líka. Hin meginröksemdin eru áhrifin, að við verðum að fara inn til þess að hafa áhrif.

Hvorug röksemdin heldur að mínu mati sem veigamikil, herra forseti. Ekkert bendir til að við eigum ekki alla möguleika á að búa um samskipti okkar við Evrópusambandið þó að samningurinn um EES breytist eða jafnvel t.d. stofnanaþáttur hans hyrfi. Það gæti jafnvel einfaldað málin að búa um þá þætti sem mestu máli skipta, viðskiptaþættina, samstarf á sviði menntunar og rannsókna, eftir atvikum samræmingu löggjafar sem við höfum að sjálfsögðu fullt vald til að sjá um sjálfir.

Inn í tilburði EES-ríkjanna, Evrópusambandsríkjanna, til vaxandi samruna á hernaðarsviðinu, á Ísland ekkert erindi, herra forseti, ef einhverjum dettur í hug að nota það sem röksemd.

Og þá að hinni, þetta með áhrifin.

Hver verða líkleg áhrif smáríkis eins og Íslands í stækkandi Evrópusambandi og hvaða verði yrðu þau áhrif keypt? Hvað mundi það kosta smáríki af okkar tagi ef við ætluðum að gæta hagsmuna okkar á öllum vígstöðvum þessa mikla bákns? Færa má fyrir því rök, herra forseti, að þessu með áhrifin sé akkúrat öfugt farið vegna þess að með aðild missum við á móti sjálfstæða rödd og sjálfstæða fulltrúa víða á alþjóðavettvangi og færumst aftur í baksveitirnar sem einn af 15 eða 25 á bak við fulltrúa framkvæmdastjórnar eða ráðherraráðs sem fara með orðið fyrir hönd Evrópusambandsríkjanna sameiginlega. Ég hef setið sem fulltrúi Íslands eða verið þátttakandi í sendinefndum þar sem fulltrúar hinna Norðurlandaþjóðanna hafa verið heldur hjárænulegir í slíkum baknefndum á sama tíma og Ísland hafði sjálfstæða rödd og má sem dæmi nefna nú síðast mjög mikilvægan vettvang þegar samið var um svonefndan úthafsveiðisamning Sameinuðu þjóðanna. Þá voru það ekki fulltrúar Dana eða annarra Evrópusambandsríkja sem töluðu máli þjóða sinna. Það gerði einn fulltrúi frá Brussel.

Ég held því fram, herra forseti, að yfirleitt sé innan Evrópusambandsins ríkjandi ágætur skilningur á stöðu okkar og sérstöðu. Í heimsókn Alþingis til Þýskalands á dögunum ræddum við, sem í þeirri sendinefnd vorum, við háttsetta fulltrúa allra þingflokka á þýska þinginu Bundestag. Algengt var að þar segðu menn sem svo: Það sem er að gerast með samrunanum á meginlandi Evrópu er gott fyrir frið og stöðugleika þar en það er ekki endilega víst að það henti ykkur, sögðu sömu menn. Menn virtust þekkja til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og virtust skilja vel sérstöðu Íslands eða eftir atvikum Noregs.

[12:00]

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að yfirgnæfandi röksemdir standi eftir lestur þessarar skýrslu gegn því að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Á móti röksemdum af því tagi sem ég áður nefndi, að við verðum að vera með af því að flestir aðrir ætli að vera það, að við fáum svo mikil áhrif eða að við náum til okkar svo miklum styrkjum, standa að mínu mati þessar helstar:

Í fyrsta lagi hefði aðild í för með sér almenna skerðingu sjálfstæðis og fullveldis, glötun sérstöðu og möguleika til að rækta góð sambönd við alla jafnt.

Í öðru lagi er Evrópusambandið þunglamalegt og miðstýrt og að mörgu leyti ólýðræðislegt hvað vinnubrögð og ákvarðanatöku snertir. Almenningur víða í ESB-löndunum upplifir sambandið sem fjarlægt bákn og kosningaþátttaka er á hraðri niðurleið þegar að því kemur að velja þangað fulltrúa á hina einu kjörnu samkundu. Ísland yrði aldrei annað en jaðarsvæði og útkjálki í þessu stóra sambandsríki.

Í þriðja lagi, varðandi hagsmuni sjávarútvegs, eru engar líkur á því, eins og hér hefur reyndar þegar verið ágætlega rökstutt í umræðunni, að Íslandi standi neitt annað til boða en í mesta lagi tímabundin aðlögun að sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni. Þá flyst ákvörðun um heildarveiðiheimildir til Brussel. Þá flytjast samskipti við erlend ríki, forsvar fyrir Ísland á alþjóðavettvangi annars staðar til Brussel og sjálfstæð rödd Íslands á alþjóðavettvangi hljóðnar, þar á meðal í hafréttarmálum. Þá flyst fiskveiðistjórnun deilistofna til Brussel, þá flyst forræði í samningum um óútkljáða deilumál til Brussel og þá glatast það forræði auðlindarinnar sem við í gegnum sjálfstæða löggjöf og það að eiga ekki aðild að þessari stefnu höfum getað tryggt okkur hingað til.

Fjórða atriðið tengist landbúnaði en höfundar skýrslunnar, eins og ég les hana, telja langlíklegst að aðild yrði neikvæð fyrir allar greinar landbúnaðar nema helst sauðfjárrækt. Það er að vísu rétt að sú tilvitnun sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom hér með stendur í útdrætti um landbúnaðarmál en þegar textinn er lesinn til fulls ræð ég ekki annað af honum en að fyrst og fremst sauðfjárræktin gæti hugsanlega náð nokkuð sæmilegri stöðu vegna þess að að hún er algjör aukabúgrein í ríkjum Evrópusambandsins og gríðarlega styrkt sem slík. Með því að ná þeim styrkjum til baka hingað gæti hún e.t.v. komið sæmilega út. Þetta yrði neikvætt fyrir flestar ef ekki allar aðrar greinar landbúnaðar og neikvætt fyrir innlendan matvælaiðnað sem byggir á hráefnum úr þeim greinum.

Á móti hafa menn rætt um það, sem mikið var beitt í umræðum í Finnlandi og Svíþjóð, að neytendur fái í staðinn lægra matvælaverð. Einhver mestu vonbrigði almennings og það sem hefur á nýjan leik vakið vaxandi andstöðu við aðild eða veru í Evrópusambandinu í Svíþjóð og Finnlandi er sú staðreynd að þetta gekk ekki eftir. Matvælaverðið lækkaði ekki eins og lofað hafði verið þó að aðildin hafi reynst landbúnaði í Svíþjóð en þó einkanlega í Finnlandi mjög þungt högg.

Í fimmta lagi er ljóst að við lendum innan tollmúra Evrópusambandsins. Það gæti tvímælalaust orðið okkur neikvætt á öðrum markaðssvæðum. Ísland er mjög háð útflutningi og tveir aðrir mikilvægustu útflutningsmarkaðir okkar, Norður-Ameríka og Suðaustur-Asía, eru í viðskiptablokkum sem keppa við Evrópusambandið og standa í illdeilum við það á mörgum sviðum, m.a. hvað varðar tollamál og viðskiptakjör. Því er augljóst að það að lenda fyrir innan tollmúra í tollabandalag sem Evrópusambandsríki gæti reynst okkur skeinuhætt. Það er líklegt að slíkt yrði neikvætt fyrir íslenska ferðaþjónustu, það mundi fela í sér afnám tollfrjálsrar verslunar og fleira því um líkt.

Í sjötta lagi er ljóst að aðild mundi skerða mjög möguleika okkar á sjálfstæðri efnahagsstjórnun, þeirri sömu sjálfstæðu efnahagsstjórnun og hv. þm. Össur Skarphéðinsson vill núna beita til að slá á þenslu og verðbólguhættu. Ég er hv. þm. hjartanlega sammála um það en til að geta gert það þurfum við að hafa tækin í okkar höndum en ekki úti í Brussel. Hagsveiflur hér eru iðulega aðrar en á meginlandi Evrópu. Það nægir að benda á þá augljósu staðreynd að aðild að efnahagsstefnu Evrópusambandsins undanfarin missiri, svo ekki sé nú talað um sameiginlegan gjaldmiðil, hefði verið katastrófa fyrir Ísland síðustu missiri eins og aðstæður hafa verið hér í efnahagsmálum.

Herra forseti. Að lokum, varðandi kostnaðinn, er ljóst að aðild yrði okkur eðlilega mjög dýr sem velmegunarríkis. Að óbreyttu er hún talin kosta 8 milljarða kr. en það er líklegt að aðgöngumiðinn mundi hækka í 10--12 milljarða með stækkun Evrópusambandsins. Í besta falli standa möguleikar til að ná um helmingi af því til baka í formi styrkja. Slíkir útreikningar hafa e.t.v. lítið upp á sig. Ég er ekki einn þeirra sem telja að reikningsdæmið eigi þarna að vega þungt vegna þess að það er að sjálfsögðu mikilli óvissu undirorpið en staðreyndin er engu að síður að Ísland er eitt af ríkustu löndum heims. Því yrði eðlilega ætlað að greiða. Það tel ég ekki eftir í sjálfu sér en við skulum líka minnast hins, eins og maðurinn sagði, að það er að meðaltali dýrt að vera Íslendingur. Það er ekki víst að alltaf yrði úti í Evrópu skilningur á því hvað til þarf og hvað það kostar að halda uppi velmegunarsamfélagi við þær aðstæður sem við Íslendingar gerum úti á hjara veraldar, eins og við segjum stundum, herra forseti.

Mergurinn málsins er sá, herra forseti, að Íslandi hefur aldrei vegnað betur en einmitt sem sjálfstæðri þjóð. Hin rúmlega hálfa öld sem lýðveldið núverandi hefur staðið hefur um leið verið mesta framfarastig íslensku þjóðarinnar. Það er ekki tilviljun. Vegna sjálfstæðisins höfum við getað tekið sjálfstæðar ákvarðanir sem hafa lagt grundvöllinn að velmegun okkar. Við höfum getað fært út landhelgina vegna þess. Við höfum sjálf getað gætt auðlinda okkar og nýtt þær eða virkjað í eigin þágu og í samræmi við eigin hagsmuni. Sjálfstæðið hefur sem slíkt reynst okkur verðmæt auðlind, sívirk auðlind eins og það heitir í bókartitli.

Skýrslan sem hér er til umræðu, herra forseti, er mikilvæg að mínum dómi, ekki síst vegna þess að hún skýrir stöðu málsins. Það liggur tiltölulega skýrt fyrir í hverju hagsmunir Íslands eru fólgnir. Við eigum að gæta þeirra án aðildar að Evrópusambandinu eða öðrum slíkum blokkum en með góðum samningum, samvinnu og samskiptum við þau og til allra átta. Það á að vera framtíðarstefnan miðað við þær forsendur sem við sjáum fyrir okkur og eins og þær líta út til fyrirsjáanlegrar framtíðar. Þessi stefna þarf að vera eins skýr og kostur er til þess að allir sem hagsmuna eiga að gæta geti á grundvelli hennar gætt hagsmuna sinna og byggt upp stöðu sína að þessu leyti. Þá vita menn að hverju þeir eiga að ganga. Það er ekki gott að velta stanslaust vöngum um grundvallarstefnumótun á sviði afdrifaríkustu utanríkishagsmuna þjóðar. Þar skiptir máli að stefnufesta ríki og ekki sé hringlandaháttur.

Það er líka mikilvægt, herra forseti, og ég endurtek það að lokum, að allir geri umræðunni það gagn að tala eins skýrt um hlutina og þeim er nokkur kostur. Það viljum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði gera, við höfum lagt okkar að mörkum, m.a. með tillöguflutningi hér á Alþingi. Við erum hvenær sem er tilbúin til umræðna og rökræðna um þetta mál.