Skuldastaða heimilanna

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 15:29:59 (7013)

2000-05-08 15:29:59# 125. lþ. 107.94 fundur 489#B skuldastaða heimilanna# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[15:29]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég er alveg einfær um að tala fyrir hönd Framsfl. í þessari umræðu. Ég sagði í fyrri ræðu minni að við værum að athuga þessar tillögur og sumar þeirra verða framkvæmdart. Það er ekki búið að ganga frá því hverjar af þeim verða framkvæmdar, nema fáeinum. En bæði er verið að athuga með barnabæturnar og eins með greiðsluerfiðleikana.

[15:30]

Skuldaaukningin hjá heimilunum helst í hendur við innstæðuaukninguna í lífeyrissjóðunum og þetta hefur haldist í hendur undanfarin ár. Gert hefur verið stórkostlegt átak í félagslegum húsnæðismálum. 1.400 viðbótarlán handa 1.400 fjölskyldum í fyrra vegna félagslegra húsnæðislána og lánað út á 500 leiguíbúðir. Það þarf tvær nýjar íbúðir á hverjum einasta degi á höfuðborgarsvæðinu til þess að svara eftirspurn. Það kostar ekkert lítið og það er ekkert undarlegt þó að húsnæðisverðið hækki, líka þegar kaupmáttaraukning er svo mikil sem verið hefur og skuggahlið kaupmáttaraukningarinnar er náttúrlega mikil eyðsla og viðskiptahalli getur sett af stað verðbólguskriðu. En ljósi punkturinn við þetta er að heimilunum gengur yfirleitt betur að standa í skilum við lánastofnanir. Skil húsnæðislána hafa batnað samfellt frá 1995. Vanskil lækkuðu um 300 millj. milli 1997 og 1998 og 174 millj. milli 1998 og 1999 og svipað er að segja um flestar lánastofnanir, banka og sparisjóði, Glitni og samvinnusjóðina o.s.frv. Skilin hafa batnað við Innheimtustofnun sveitarfélaganna. Lögunum hefur reyndar verið breytt til að rýmka og bæta samningsstöðu. Dregið hefur úr ásókn í fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Í Reykjavík fækkaði heimilum með fjárhagsaðstoð um 330 á síðasta ári. Gjaldþrotaúrskurðum í Reykjavík hefur fækkað um helming frá 1974. Ég hef áhyggjur, herra forseti, en sé marga jákvæða hluti. Vaxtahækkun er slæm og verðbólguskriða er enn þá hættulegri.