Álagning gjalda á vörur

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 20:17:52 (7240)

2000-05-09 20:17:52# 125. lþ. 110.25 fundur 500. mál: #A álagning gjalda á vörur# (breyting ýmissa gjalda) frv. 104/2000, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 125. lþ.

[20:17]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir brtt. og nál. vegna frv. til laga um breyting á lögum um álagningu gjalda á vörur. Frv. þetta er svokallaður bandormur og í allnokkrum köflum sem fjalla um breytingu á mismunandi flokkum gjalda.

Nefndin hefur fjallað um þetta mál, sent það til umsagnar og (Gripið fram í: Forseti. Það heyrist ekki í ræðumanni.) Herra forseti. Það mundi heyrast betur í mér ef ekki væru fleiri fundir í gangi í þingsalnum.

Nefndin gerir tillögu til breytingar á frv. sem eru í einum ellefu liðum og mun ég nú gera grein fyrir þeim.

Í fyrsta lið brtt. er fyrst og fremst fjallað um breytingar sem varða brúðkaupsgjafir og hvað þær mega vera dýrar til þess að þær séu gjaldfrjálsar.

Í öðrum lið brtt. er fyrst og fremst verið að skýra betur heimildir tollstjóra til niðurfellingar á tollum.

Í þriðja lið brtt. er tilvísanabreyting.

Í fjórða lið brtt. er enn fremur tilvísunarbreyting.

Í fimmta lið brtt. er verið að fella niður toll af ákveðnu tollskrárnúmeri sem er 1904.1002 og á við um morgunkorn. Þegar hefur verið felldur niður tollur af morgunverðarkorni sem kemur frá hinu Evrópska efnahagssvæði en með þessari breytingu verður þessi tollaniðurfelling almenn. Það er rétt að geta þess að í nefndaráliti er ekki sagt rétt frá því hvað þessi breyting þýðir og er rétt að það sé haft í huga.

Í sjötta lið brtt. er tilvísanabreyting.

Í sjöunda lið brtt. er verið að breyta niðurfellingu á gjöldum fyrir björgunarsveitir þannig að það nær ekki aðeins til bifreiða og vélsleða heldur einnig til annarra ökutækja.

Í áttunda lið brtt. er fyrst og fremst verið að breyta tilvísunum og skýra út að vörugjald skuli ná til vörgjalds af ökutækjum samkvæmt þessum lögum eftir því sem við getur átt.

Í níunda lið er fyrst og fremst verið að breyta orðunum ,,Bifreiðar og vélsleðar`` og ,,bifreið eða vélsleði`` í: ,,ökutæki``. En þetta varðar heimild til niðurfellingar á gjöldum af ökutækjum til björgunarsveita eins og ég hef fjallað um hér áður.

Varðandi 20. gr. frv. er verið að breyta því að í stað orðsins ,,aðilar`` komi: ,,rannsóknaraðilar``. Þetta er líka spurning um endurgreiddan virðisaukaskatt, þ.e. að aðeins rannsóknaraðilar fái slíkan virðisaukaskatt endurgreiddan af rannsóknartækjum.

Í ellefta lið brtt. er ákv. til brb. sem varðar yfirgangstímann, hvernig fara skuli með heimildir sem innflytjendur og framleiðendur hafa við gildistöku laga þessara til niðurfellingar tolls af hráefni, efnivöru og hlutum í innlendar framleiðsluvörur og hvaða reglur gilda um þennan yfirgangstíma.

Virðulegi forseti. Undir nefndarálitið rita allir hv. nefndarmenn en þrír hv. þm. þau Jóhanna Sigurðardóttir, Margrét Frímannsdóttir og Ögmundur Jónasson hafa fyrirvara.