Reglur um öryggisbúnað í bifreiðum fatlaðra

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 12:55:35 (7397)

2000-05-10 12:55:35# 125. lþ. 114.6 fundur 631. mál: #A reglur um öryggisbúnað í bifreiðum fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[12:55]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Algengt er að þeir sem eru fatlaðir aki ökutækjum sem eru sérútbúin fyrir þarfir þeirra. Nýju ökuskírteinin bera með sér tákntölu sem vísar til skilyrða eða takmarkana vegna fötlunar. Oft er áskilið að búnaður ökutækis viðkomandi, sem oftast er bifreið, sé aðlagaður þörfum hins fatlaða. Sá áskilnaður byggist á læknisfræðilegu mati og hæfnisathugun.

Reglugerð um gerð og búnað ökutækja frá árinu 1993 gerir ráð fyrir ökutækjum fyrir hreyfihamlaða, þ.e. ökutækjum sem búin eru til að mæta sérþörfum hreyfihamlaðra til aksturs. Ekki eru þar sérstök ákvæði um allan þann sérbúnað sem notaður kann að vera sem þá er að jafnaði viðbótarbúnaður við hinn almenna búnað ökutækisins. Sérstök ákvæði eru þó um stýrisbúnað og hemla. Tekið er fram að stýrisbúnaði bifreiðar megi breyta þannig að henti hreyfihömluðum ökumanni og er þá kveðið á um að þegar stýrisbúnaði hefur verið breytt þannig að léttara sé fyrir ökumann að stjórna bifreið skuli búnaðurinn hafa viðtengt orkuforðabúr. Ef hreyfill stöðvast af ófyrirsjáanlegum orsökum skal orkuforðabúrið gera ökumanni kleift að stýra bifreiðinni örugglega þar til hún er stöðvuð.

Þá er tekið fram að bifreið fyrir hreyfihamlaða sem búin er handstýrðum aksturshemli þurfi ekki jafnframt að vera búin neyðarhemli eða stöðuhemli svo sem almennt er áskilið.

Loks gilda nokkuð rýmri reglur um fjölda nagla í hjólbörðum bifreiða fyrir hreyfihamlaða en gilda almennt. Mér er tjáð að við þá endurskoðun reglugerðar um gerð og búnað ökutækja sem staðið hefur yfir að undanförnu hafi ekki komið fram að þörf væri breytinga á þessum ákvæðum. Að því er varðar bifreiðar hins vegar sem ætlaðar eru til að flytja hreyfihamlaða er þess að geta að engin sérákvæði eru um búnað slíkra bifreiða í reglugerðinni um gerð og búnað ökutækja. Við þá endurskoðun reglugerðarinnar sem ég hef þegar getið þótti full ástæða til að bæta úr þessu og í drögum að nýrri reglugerð er gert ráð fyrir sérstökum ákvæðum er nái til þessara bifreiða. Það eru ákvæði um lofthæð í farþegarými, um búnað til að festa hjólastóla, um öryggisbelti og festiólar. Þessi ákvæði eru að meginstefnu í samræmi við norsk ákvæði.

Ákvæðin eru ítarlegri en svo að tími sé til að lýsa þeim nánar héðan úr ræðustól en texta hinna nýju ákvæða eins og hann er í reglugerðardrögum mun ég afhenda hv. fyrirspyrjanda nú að máli mínu loknu ef hann óskar þess.

Að lokum vil ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að hafa vakið máls á þessu og vænti þess að með svari mínu hafi hann fengið fullnægjandi svör við fsp. sinni en þessi nýja reglugerð sem ég hef minnst á, um gerð og búnað ökutækja, verður gefin út innan skamms.