Verndun Þjórsárvera við Hofsjökul

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 13:35:30 (7414)

2000-05-10 13:35:30# 125. lþ. 114.11 fundur 604. mál: #A verndun Þjórsárvera við Hofsjökul# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[13:35]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Kristján Pálsson spyr í fyrsta lagi: Hvað líður ákvörðun um mörk Þjórsárvera við Hofsjökul? Og í öðru lagi: Liggur fyrir bráðabirgðaniðurstaða um mörk Þjórsárvera eftir samkomulag árið 1981 um friðun þeirra? Einnig er þriðja spurningin en ég tel eðlilegt að svara fyrstu og annarri spurningu í einu lagi.

Því er til að svara að Þjórsárver voru upphaflega friðuð árið 1981 með auglýsingu í Stjórnartíðindum nr. 753/1981. Núgildandi friðun er samkvæmt auglýsingu í Stjórnartíðindum nr. 507/1987 sem byggir á heimild í lögum í 24. gr. laga nr. 47/1971, um náttúruvernd. Í auglýsingunni er skýrt kveðið á um mörk friðlandsins og eru mörk hins friðlýsta svæðis þessi, og hér er um tilvitnun að ræða, virðulegur forseti:

,,Lína, sem hugsast dregin frá Eiríksnípu sunnan í Hofsjökli norðaustur í ónefnt jökulsker 1.250 m yfir sjávarmáli norður af Arnarfelli hinu litla. Frá jökulskerinu hugsast dregin lína í öldu 644 m yfir sjávarmáli norðaustur af Þúfuveri. Þaðan suður í öldu 642 m yfir sjávarmáli austur af Þúfuveri, þaðan suðsuðvestur í öldu 634 m yfir sjávarmáli sunnan Þúfuvers, þaðan vestur í öldu 606 m yfir sjávarmáli vestnorðvestur yfir Þjórsá í öldu á Fjórðungssandi 622 m yfir sjávarmáli og þaðan aftur í Eiríksnípu. Línur milli punktanna hugsast beinar og hæðartölur eru samkvæmt uppdrætti Íslands, blöðum 65 og 66, gefnum út af Geodætisk Institut 1954.`` --- Mörkin liggja því alveg fyrir á friðlandinu.

Varðandi þriðju spurningu hv. þm.: Er ágreiningur um virkjanir í grennd við Þjórsárver sem gætu skaðað svæðið? Það er alveg ljóst að ágreiningur er um framkvæmdir sem menn hafa rætt um á fyrri stigum í grennd við Þjórsárver, aðallega um Norðlingaöldulónið og Kvíslaveitu 6. Í auglýsingu um friðland í Þjórsárverum kemur fram að Náttúruverndarráð, nú Náttúruvernd ríkisins, mun eins og fram kemur í auglýsingunni, með leyfi forseta:

,,... fyrir sitt leyti veita Landsvirkjun undanþágu frá friðlýsingu þessari til að gera uppistöðulón með stíflu við Norðlingaöldu í allt að 581 m yfir sjávarmáli, enda sýni rannsóknir að slík lónsmyndun sé framkvæmanleg án þess að náttúruverndargildi Þjórsárvera rýrni óhæfilega að mati Náttúruverndar ríkisins.``

Engin ákvörðun liggur fyrir um mörk Norðlingaöldulóns né bráðabirgðaniðurstaða og að meta fyrstu umhverfisáhrif Norðlingaöldulóns. Náttúruvernd ríkisins telur að Norðlingaöldulón muni skerða Þjórsárver. Einnig hafa verið uppi hugmyndir um 6. áfanga Kvíslaveitu, en engin ákvörðun hefur verið tekin um hvort eða hvenær skuli fara í slíkar framkvæmdir.

Samkvæmt upplýsingum mínum er Landsvirkjun að ljúka rannsóknum sem sýna hver áhrifin verða af þessum hugmyndum og skýrsla verður tilbúin bráðlega og þá verður væntanlega hægt að taka ákvörðun um hvort leggja eigi í mat á umhverfisáhrifum og má því segja að málið sé í nokkurs konar biðstöðu þangað til frekari upplýsingar liggja fyrir.