Málefni ungra afbrotamanna

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 14:06:31 (7429)

2000-05-10 14:06:31# 125. lþ. 114.13 fundur 436. mál: #A málefni ungra afbrotamanna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[14:06]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Stuðningur barnaverndaryfirvalda við börn sem stefna velferð sinni í hættu með hegðun sinni er mjög mikilvægur. Í flestum tilvikum sem börn gerast brotleg eða stefna velferð sinni í hættu með hegðun sinni er um að ræða neyslu vímuefna sem leiða til afbrota, jafnvel ofbeldis og fer þetta tvennt því miður oft saman og hefur vaxið töluvert á undanförnum árum. Get ég sagt því til stuðnings að fyrir stuttu síðan mátti lesa úr athugun sem gerð var að hluti grunnskólabarna óttast stöðugt ofbeldi af hálfu félaga sinna og er það breyting frá því sem áður var.

Þegar ljóst er að barn er í hættu vegna eigin hegðunar ber viðkomandi barnaverndarnefnd að grípa inn í og veita aðstoð með viðtölum, ráðgjöf, vistun á stofnunum eða heimili eða öðrum tiltækum ráðum. Ef grunur leikur á að barn hafi framið refsiverðan verknað á lögreglan að tilkynna það strax til viðkomandi barnaverndaryfirvalda. En það á einnig að vera sjálfsögð skylda allra að tilkynna viðkomandi barnaverndarnefnd ef vart verður við erfiðleika barns þannig að hægt sé að grípa inn í áður en erfiðleikar barns verða það verulegir að þeir hafi alvarlegar afleiðingar ...

(Forseti (ÍGP): Má ég biðja hv. þingmenn að hafa hljóð í salnum.)

... og barn gerist brotlegt í lög. Það hvílir því mikil ábyrgð á barnaverndarnefndum hvað varðar forvarnastarfsemi og ef vel er á málum haldið tekst að koma í veg fyrir að hópur barna leiðist út í afbrot.

Í skýrslu nefndar um málefni ungra afbrotamanna frá því í maí 1999 má lesa að framkvæmdir á þessum þætti eru viðunandi, eins og segir í skýrslum, í stærstu sveitarfélögunum. Það er hins vegar ekki minnst á stöðuna í minni sveitarfélögunum og, virðulegi forseti, það er vissulega hætta á að þar séu ekki sömu möguleikar til að taka á málum og í stærri sveitarfélögunum.

Nefndin leggur í skýrslu sinni áherslu á að til að tryggja samræmda framkvæmd og góðan árangur í barnaverndarstarfsemi, þurfi að taka saman eða leggja fram samræmdar leiðbeiningar um fyrstu aðgerðir þegar barn gerist brotlegt við lög. Slíkar leiðbeiningar væru barnaverndarnefndum gagnlegar og gætu stuðlað að vandaðri og samræmdari vinnubrögðum innan sveitarfélaga. Í tilefni af þessu beini ég fyrirspurn til hæstv. félmrh., með leyfi forseta:

,,Hefur ráðherra, í samræmi við niðurstöður nefndar um málefni ungra afbrotamanna, beitt sér fyrir því að settar verði samræmdar leiðbeinandi reglur fyrir barnaverndar- og félagsmálanefndir sveitarfélaga hvað varðar fyrstu aðgerðir þegar barn gerist brotlegt við lög? Ef svo er, hver eru meginatriði þeirra reglna? Ef ekki, hver er ástæða þess að ekki er farið að tillögum nefndarinnar?``