Framtíð sjúkraflugs

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 14:38:13 (7441)

2000-05-10 14:38:13# 125. lþ. 114.18 fundur 515. mál: #A framtíð sjúkraflugs# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[14:38]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil í tengslum við þessa fyrirspurn fyrst og fremst fagna þeirri ákvörðun hæstv. heilbrrh. að ákveða að miðstöð sjúkraflugs verði á Akureyri. Ég hreyfði þessu máli í fyrirspurn fyrir nokkru síðan og sömuleiðis liggur fyrir á þingi þáltill. einmitt um þetta atriði flutt af hv. þm. Þuríði Backman o.fl.

Ég tel að afar mikilvægt sé að vandað verði til verka í þessu tilviki, þ.e. að fengin verði vönduð vél með jafnþrýstibúnaði sérútbúin til sjúkraflugs sem eingöngu sinni þeim verkefnum þannig að um borð sé til staðar fastur búnaður sem geri þetta í raun að fljúgandi sjúkrastofu. Sömuleiðis er nauðsynlegt að efla viðbúnað við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri til að mæta þjónustunni á bak við og er að mínu mati, herra forseti, einboðið að nota tækifærið og efla FSA sem miðstöð sérhæfðrar deildaskiptrar heilbrigðisþjónustu fyrir landsbyggðina. Það fer mjög vel saman við hlutverkið á bak við sjúkraflugið og sömuleiðis á þetta, ef vel tekst til, að geta eflt það innanlandsflug, mjög mikilvægt innanlandsflug til margra afskekktra byggðarlaga sem haldið er úti frá Akureyri og vandséð er að verði gert annars staðar frá.