Flutningur eldfimra efna um Hvalfjarðargöng

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 15:12:41 (7455)

2000-05-10 15:12:41# 125. lþ. 114.15 fundur 507. mál: #A flutningur eldfimra efna um Hvalfjarðargöng# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[15:12]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hér hefur komið fram sú skoðun að það eigi að banna þessa flutninga. Ég tel að full ástæða sé til þess að skoða það. Það vill svo vel til að við höfum greiðan og fáfarinn veg fyrir Hvalfjörð sem hægt er að nýta til þessara flutninga og olíunotkun eða bensínnotkun á farartækin ætti ekki að verða ofviða þeim sem stunda þessa flutninga.

Vegna þess sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda tel ég að það sé óhjákvæmilegt, bæði vegna ábendinga hans og líka vegna þess að Vegagerðin hefur verið að skoða þetta, að taka afstöðu til þess hvort það eigi að ganga svo langt að banna þessa flutninga. Ég get alveg tekið undir það að við eigum ekki endilega að taka hrátt upp reynslutölur annars staðar frá en aðalatriðið er það að við reynum að tryggja öryggi sem allra mest. Ég mun taka þetta mál til frekari meðferðar á þessu ári, ekki seinna en þegar þær skýrslur liggja fyrir sem ég vitnaði til en það þarf auðvitað að gera eins og ég sagði, í samráði og góðu samstarfi við forsvarsmenn Spalar.

Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir mjög nauðsynlega fyrirspurn, að fá fram umræður um þetta. Vonandi verður ekki langt að bíða að skýrari svör liggi þarna fyrir. Hvað varðar eftirlitið þá er það í höndum lögreglunnar og ég verð að viðurkenna að mér er ekki ljóst hvernig að því er staðið að öðru leyti en því sem þar er eins og önnur löggæsla á þjóðvegum þannig að ég verð að vísa til þess.