Skipulagsbreytingar hjá Íslandspósti hf.

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 15:30:31 (7461)

2000-05-10 15:30:31# 125. lþ. 114.17 fundur 613. mál: #A skipulagsbreytingar hjá Íslandspósti hf.# fsp. (til munnl.) frá samgrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[15:30]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 13. þm. Reykv. og hæstv. samgrh. fyrir þeirra innlegg í þetta mál. Það er nauðsynlegt að vekja athygli á hinni miklu breytingu sem er að verða í póstmálum hér á landi. Þetta var tiltölulega varin og örugg atvinnugrein sem var ekki í mjög mikilli samkeppni. Það hefur breyst.

Við erum í dag að upplifa mikla samkeppni á þessu sviði, nú er möguleiki á að senda rafpóst og ýmsir aðrir aðilar hafa komið til skjalanna, t.d. eru dagblöðin í beinni samkeppni við póstdreifinguna í landinu. Dagblöðin dreifa alls konar upplýsingum og þess háttar sem áður fór í gegnum póstkerfið. Þess vegna er nauðsynlegt fyrir okkar póstkerfi að geta brugðist við.

Við sjáum líka að úti í heimi eru póstfyrirtæki hreinlega að sameinast flugfélögum eins og dæmi eru um, til að mynda í Þýskalandi. Við munum enn sjá mjög miklar breytingar á þessu sviði sem nauðsynlegt er að höfuðpóstflutningafyrirtæki okkar, Íslandspóstur, hafi möguleika og burði til að bregðast við. Þess vegna er mikilvægt að fyrirtækið hafi aðstöðu til að aðlaga sig breyttum tímum.