Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 20:42:34 (7475)

2000-05-10 20:42:34# 125. lþ. 115.1 fundur 511#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumnræður)#, SvH
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 125. lþ.

[20:42]

Sverrir Hermannsson:

Góðir áheyrendur. Utanrrh. færði þingheimi sérstakar þakkir fyrir það hversu vel hann hefði tekið skýrslu sinni um Evrópumál. Ekki getur forsrh. þakkað fyrir þessar þakkir utanrrh. eða tekið þær til sín.

Herra forseti. Frá örófi alda kennir sagan okkur að valdastreitumenn allra tíma hafa jafnan brugðið á það ráð að koma sér upp stórbrotnum hugsjónum að klæða aðferðir sínar í, hugsjónum að næra almenning á og skjóta með þeim skildi fyrir hinn raunverulega tilgang, að treysta eigin völd og einræði í skjóli hervalds þar sem því hefur verið við komið.

Á þeirri öld sem senn er á enda liðin eru dæmin gleggst, átakanlegust og örlagaríkust. Rússneskir valdaræningjar tóku heimspekikenningar Marx og Engels upp á arma sína, hinar fögru og umbúðamiklu kenningar um alræði öreiganna og nýttu til að koma á fót hrottafengnu einveldi sem verður aðeins jafnað til einræðis Hitlers sem raunar kenndi sig einnig við sósíalisma.

Vegna ytri umbúða í fyrstu og upprunalegs innihalds þessara isma létu margir af fremstu andans mönnum aldarinnar glepjast. Það er óþarft að nefna nöfn en Gerska ævintýrið er góð handbók um efnið. Eins voru þeir margir heiðursmennirnir sem klæddust brúnum stökkum undir hakakrossi á 3. tugi aldarinnar og einnig hér á Íslandi.

Hið fræga skáldverk George Orwells, Animal Farm, eða Félagi Napóleon eins og það nefndist upphaflega í íslenskri þýðingu, er eitt út af fyrir sig nægileg lesning til að skilja eðli og inntak sovétmála í 75 ár. Spámannlegt og raunsætt í senn, byrjunin var full af hugsjónum um jafnrétti og bræðralag. Aðalboðorðið var: Öll dýr eru jöfn, en þar kom að þessi undirstöðugrein í stjórnarskrá Dýrabæjar hafði tekið ofurlítilli breytingu og hljóðaði þá: Öll dýr eru jöfn en sum dýr eru jafnari en önnur. Og að lokum fór valdastéttin, svínin, að ganga upprétt á tveim fótum.

[20:45]

Raunar má segja að sósíalisminn spretti upp sem mótvægi við kapítalismann sem hafði deilt og drottnað lengst af og honum stýrt af fámennri auðstétt með fádæma harðýðgi og þrælmennsku. Þar kom þó síðari hluta aldarinnar að þetta framferði þótti ekki við hæfi. Þá varð að klæða kapítalismann, eðli hans og tilgang í nýjan búning sem hægt væri að selja atkvæðunum í þróuðu ríkjunum eftir að hervaldi var þar ekki lengur beitt og frjálshyggjan fæddist.

Á Íslandi hafði Sjálfstfl. verið frjálslyndur lýðræðisflokkur sem hafði að kjörorði ,,stétt með stétt``, frelsi til orða og æðis sat þar í öndvegi. Frjálst framtak einstaklinganna, undirstöðuatriði og samkeppni á jafnréttisgrundvelli markmið og minnkandi ríkisafskipti jafnframt. Flokkurinn átti enga samleið með íhaldsöflum eins og þau þekktust í nálægum löndum. Af þessum ástæðum varð Sjálfstfl. fjöldaflokkur sem raun ber vitni um.

Allar götur fram á 8. áratuginn hélt frjálslynda stefna Sjálfstfl. velli undir stjórn Ólafs Thors, Bjarna Benediktssonar, Jóhanns Hafsteins og reyndar Gunnars Thoroddsen einnig. Það er fyrst í tíð Geirs Hallgrímssonar að frjálshyggjupostularnir, á stuttum buxum flestir, taka að láta á sér kræla og var heiðursmaðurinn Geir að vísu veikur á því svelli. En honum var vorkunn rétt eins og fyrri tíðar mönnum sem létu glepjast af hugmyndafræðinni í aðlaðandi búningi en sáu ekki til hvers leiða kynni í framkvæmd.

En í hvaða búningi var frjálshyggjan í fyrstunni klædd? Frjálshyggjan birtist í fyrstu sem frjáls markaðsstefna sem lagði áherslu á minnkandi ríkisafskipti. Hún boðaði eign handa öllum og frjálsræði til handa einstaklingnum að neyta krafta sinna og hæfileika. Mannúðleg menningarstefna vildi hún líka heita og töldu margir að hún félli hið besta að velferðarþjóðfélagi okkar. Þó voru ýmsir sem guldu varhug við hinni áferðarfallegu stefnu og voru þar á meðal margir stjórnmálamenn af lýðveldiskynslóðinni sem svo hefur verið nefnd. Þeir voru afgreiddir af hinum ungu nýjabrumsmönnum sem gamaldags úrtölumenn sem skynjuðu ekki boðskap nýrra og gerbreyttra tíma.

Ekki er fyrir það að synja að framkvæmd frjálshyggju í höndum Margrétar Thatcher hinnar ensku hefði vakið frjálslyndum mönnum í Sjálfstfl. ugg. En þar kom í formannstíð Þorsteins Pálssonar að frjálshyggjan varð allsráðandi í flokknum og núverandi formaður hans hefur viljað vera í þeim efnum kristnari en sá páfi var og hefur reyndar hrakið hann úr landi.

Hvernig hefur svo framkvæmd frjálshyggjunnar farið úr hendi Sjálfstfl. með því hækjuliði sem hann hefur stuðst við í ríkisstjórn síðasta áratug? Boðorðið um eign handa öllum er framkvæmt með þeim hætti að örfáum útvöldum er afhentur lunginn úr þjóðarauðnum, sjávarauðlindin, á silfurfati að stinga í eigin vasa þrátt fyrir lögvarinn eignarrétt almennings. Viðbrögð flokksformanna ríkisstjórnarflokkanna með ódæmum þegar menn hafa viljað láta á það reyna hvort aðfarirnar stæðust jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar. Báðir höfðu þeir á orði að stæðist gjafakvótakerfið ekki jafnréttisákvæði stjórnarskrár þyrfti að breyta stjórnarskránni.

Hvað merkja þessar fáheyrðu yfirlýsingar æðstu manna framkvæmdarvaldsins og raunar löggjafarvaldsins einnig eins og þær sakir standa? Hvað merkja þær á mæltu máli? Einfaldlega að þeir mundu afnema jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar ef þeim þurfa þætti. Orðrétt sagði forsrh. í viðtali við Morgunblaðið 7. apríl sl., með leyfi forseta:

,,Ef Vatneyrardómurinn hefði verið staðfestur hefði öllu verið kollvarpað. Þá hefði löggjafinn ekkert vitað hvar hann stóð. Menn hefðu þá verið í óvissu í einhverja mánuði og sjálfsagt endað með því að gera breytingar á stjórnarskránni, sem hefði kostað tvennar kosningar og stórkostlega óvissu í eitt til tvö ár með tilheyrandi hruni.``

Við uppkvaðningu héraðsdóms í Vatneyrarmálinu í ársbyrjun talaði forsrh. hinn 6. janúar í sjónvarpinu um málið og Kanaríeyjaför eins og maður sem á heima hinum megin á sjöstjörnunni. Og boðorð Sjálfstfl. sem var: Allir Íslendingar eru jafnir, hljóðar nú: Allir Íslendingar eru jafnir en sægreifar eru jafnari en aðrir.

Hvers vegna aðallega skyldi formaður Sjálfstfl. ekki vilja upplýsa um fjárreiður flokksins? Af því einfaldlega að frá og með alþingiskosningunum 1995 og fram til þessa dags hafa sægreifarnir greitt ógrynni fjár til flokksins og ýmissa framboða á hans vegum að ekki þolir dagsins ljós. Stærsti stjórnmálaflokkur þjóðarinnar er orðinn fjármunalegur bandingi örfárra gripdeildarmanna sem hramsa nú til sín þjóðarauðinn í taumlausri græðgi. Ekki þurfa þeir að hafa fyrir því að bera fé á formann Framsfl., erfingja kvótaauðæfanna, upphafsmann ólaganna ásamt með forustumanni útvegsmanna.

En hvað um framkvæmd boðorðs frjálshyggjunnar um minnkandi ríkisafskipti? Hún birtist einkum í einkavinavæðingunni þar sem afhending Síldarverksmiðja ríkisins til vina og vandamanna er eitt frægasta dæmið þar sem milljarðar voru gefnir örfáum af almannafé. Dreifð eignaraðild sem stefnuskráratriði stjórnvalda er marklaust froðusnakk sem var aldrei ætlunin að standa við. Hún er með öllu gleymd nema á þeim stundum þegar svo virðist sem óverðskuldaðir séu að ná til sín valdaaðstöðu í bönkum, þessir sem í Hólamessu voru ýmist nefndir mafíósar eða eiturlyfjabarónar og er kannski ekki leiðum að líkjast því að þær manntegundir voru reyndar aðalmenn Jeltsíns í umbótastefnu hans.

Hvernig birtist mannúðarstefna frjálshyggjunnar á Íslandi í framkvæmd? Eigum við að biðja aldraða og öryrkja að svara því eða þá sem líða sárustu neyð langt undir fátæktarmörkum meðan stórforstjórarnir verðlauna sjálfa sig með tugmilljónaaukastarfslaunum? Þegar upp er staðið sjáum við á framkvæmd frjálshyggjunnar að það er ekki í fyrsta skipti sem fagurbúin hugmyndafræði er notuð í þeim tilgangi að færa örfáum í hendur auð og völd. En forusta Sjálfstfl. mun vakna upp við vondan draum þann dag þegar hinn almenni flokksmaður uppgötvar að flokkurinn hefur þverbeygt af frjálslyndri stefnu sinni og gengið nýfrjálshyggju auðvaldsins á hönd.