Lyfjalög og almannatryggingar

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 11:11:05 (7544)

2000-05-12 11:11:05# 125. lþ. 117.3 fundur 401. mál: #A lyfjalög og almannatryggingar# (Lyfjamálastofnun o.fl.) frv. 108/2000, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[11:11]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst einmitt að núna eins og alltaf eigi að skoða það mjög vandlega hvaða áhrif það hefði á starfsemi stofnunarinnar að flytja hana út á land eða flytja hana til. Þessi stofnun er engin undantekning og það á að skoða það líka hvaða hluti starfsins getur farið út á land. Það er alveg öruggt að í hverri einustu ríkisstofnun er starfsemi sem þarf ekki að vera innan veggja, getur verið hvar sem er og þjónað okkur eftir sem áður.

Varðandi hagsmuni dreifbýlisins finnst mér það miklu meira máli skipta, ekki hvað varðar staðsetninguna á þessari nýju stofnun heldur hvernig lögin komi til með að virka og sú samkeppni sem er hér á lyfjamarkaðnum. Það er það sem ég hef miklu meiri áhyggjur af að lyfjasala sé að leggjast af út um land, að lyfjaverslunum sé að fækka, að þjónustan sé verri. Það er þetta sem ég hef meiri áhyggjur af en einmitt stofnuninni í dag.