Lyfjalög og almannatryggingar

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 11:12:44 (7546)

2000-05-12 11:12:44# 125. lþ. 117.3 fundur 401. mál: #A lyfjalög og almannatryggingar# (Lyfjamálastofnun o.fl.) frv. 108/2000, Frsm. JBjart
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[11:12]

Frsm. heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz):

Herra forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, Ásta R. Jóhannesdóttir og Þuríður Backman hafa skipst á skoðunum um byggðamál og staðsetningu nýrrar stofnunar sem frv. gerir ráð fyrir, Lyfjamálastofnunar. Ég bendi á að ákvæði frv. fjalla ekki um neina breytingu á staðsetningu þessarar stofnunar og í nál. hv. heilbr.- og trn. er heldur ekki fjallað um það. Ég held að skoðanaskipti innan nefndarinnar sem komu til af umræðum við gesti sem til hennar komu séu kannski ekki til umræðu hér og sem frsm. nál. hv. heilbr.- og trn. ætla ég ekki að blanda mér inn í þá umræðu.

Hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir gerði áðan grein fyrir fyrirvara sínum og benti m.a. á að henni hefði fundist vert að fella undir verkefni stofnunarinnar þróun lyfjanotkunar eða vinnu við þróun lyfjanotkunar og heilsuhagfræði lyfja og önnur góð mál sem hún nefndi. Ég lít þannig á að verkefni stofnunarinnar séu ekki í það heila tæmandi talin en í ljósi þeirra verkefna sem lögin fela henni að starfa við sé hún kannski í góðri aðstöðu bæði til að sinna því sem lýtur að þróun lyfjanotkunar og heilsuhagfræði lyfja.

Aðeins varðandi þörfina á lögfestingu þessa frv. sem hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir vék að er ljóst að gjaldtaka lyfjaeftirlitsgjaldsins var með dómi Hæstaréttar nr. 50/1998 dæmd ólögmæt og því vantar nú lagaheimild til að innheimta lyfjaeftirlitsgjald sem fæst ekki nema og ef af lögfestingu þessa frv. verði.