Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 14:23:29 (7574)

2000-05-12 14:23:29# 125. lþ. 117.5 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[14:23]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Margt af því sem fram hefur komið í umræðunni hefur áður komið fram, eins og t.d. umræðan um hvers vegna verið er að breyta til. Jafnframt hafa málefni starfsfólks verið til umræðu og ég hef sagt það sem skoðun utanrrn. að þar sé um vinnustað að ræða sem sé í mikilli útþenslu og við þurfum á öllu því ágæta fólki sem þar starfar að halda í framtíðinni og meira til. Sú starfsemi getur aldrei tekist vel nema með góðu starfsfólki og við treystum að sjálfsögðu á að gott samstarf við það fólk verði áfram. Við í utanrrn. munum að sjálfsögðu hafa samráð um þau mál við fulltrúa starfsfólks eins og við höfum þegar gert og hér hefur komið fram. Fulltrúar þeirra hafa óskað eftir fundi með mér fyrir nokkru síðan sem því miður hefur ekki getað orðið af en vonandi getur farið fram í næstu viku.

Hér hafa hins vegar komið fram nokkrar spurningar, t.d. um hvort ég sem utanrrh. sé tilbúinn að lýsa því yfir að þessi mannvirki eða hlutabréf í þessu hlutafélagi verði ekki seld næstu 12--15 árin. Mér er ekki nokkur leið að gefa slíka yfirlýsingu því að það er í höndum Alþingis. Ég hef áður sagt að hér sé eingöngu um það að ræða að stofna hlutafélag um þennan rekstur. Ég hef hins vegar tekið skýrt fram í umræðum að ég vil á engan hátt útiloka að þar geti ekki orðið breyting á í framtíðinni en engin slík áform eru uppi um þessar mundir af okkar hálfu í utanrrn. Hvað síðan gerist í framtíðinni, ég tala nú ekki um næstu 12--15 árin, ég veit að hv. þm. Steingrímur Sigfússon skilur að það getur enginn ráðherra gefið út slíka yfirlýsingu. Ég geri ekki ráð fyrir að hv. þm. gangi út frá því sem vísu að sá sem hér stendur sitji í stól utanrrh. næstu 12--15 árin, enda veit ég að það er ekki það sem hann hefur í hyggju og engin leið fyrir ráðherra að gefa slíkar yfirlýsingar. (SJS: Ég spurði um afstöðu ráðherrans.) Hv. þm., afstaða utanrrh. hefur komið fram við umræðuna áður og ég ítreka hana að hér er eingöngu um það að ræða að breyta þessari starfsemi í hlutafélag og engin áform eru uppi um það á þessu stigi af okkar hálfu að gera tillögu þar um breytingar en ég hef líka tekið það skýrt fram að ég hvorki geti né vilji útiloka að til þess komi á einhverju stigi. Það er nú þannig oft og tíðum að breyttar aðstæður koma upp án þess að ég sjái það í sjálfu sér fyrir núna og ég tel óskynsamlegt að vera að útiloka hluti í því sambandi og vil ekki gera það, hvorki fyrir mína hönd né annarra þeirra sem kunna að bera ábyrgð á þessu máli í framtíðinni.

Að því er varðar svokallað Schengen-mál og yfirlýsingar utanrrn. í því sambandi þá er það rétt að í bréfi til Flugleiða sem hér hefur verið vitnað í var tekið fram að fjárfesting í þessum mannvirkjum færi fram á vegum ríkissjóðs og sú fjárfesting stendur yfir núna og eftir því sem ég best veit hefur um 60% af áætluðum fjárfestingarkostnaði þegar verið fest í samningum eftir útboð og núna á næstunni fara fram útboð vegna innréttinga þannig að ég vænti þess að allar þær framkvæmdir verði innan þeirra marka sem hafa verið sett í sambandi við kostnaðaráætlanir. Við höfum lagt á það mjög mikla áherslu að vinna að þessu máli á þann hátt að kostnaður verði sem lægstur en jafnframt að um vandað mannvirki verði að ræða.

Hvað varðar gjaldtökuna þá liggur fyrir, eins og kom fram gagnvart Flugleiðum í þessu sama bréfi, að engin áform eru um frekari gjaldtöku af þeim eða öðrum flugrekstraraðilum. Ég bendi á að þær áætlanir sem hér liggja fyrir gera ráð fyrir að þessi starfsemi standi undir sér og starfsemin geti greitt niður lán með eðlilegum hætti en á það hefur skort á undanförnum árum. En það er rétt sem fram hefur komið að flugstöðin fær meira af tekjum sem þar koma inn en áður hefur verið.

[14:30]

Að því er varðar stjórnsýslu á Keflavíkurflugvelli liggur fyrir að stjórnsýslan er með þeim hætti, og hefur verið frá því að varnarsamningurinn var gerður, að utanrrh. fer með málefni er varða Keflavíkurflugvöll og þannig hefur verið gengið frá því. Í því felst að bæði lögreglan og tollgæslan á Keflavíkurflugvelli heyra undir utanrrn. og önnur þau mál sem varða flugvöllinn, hvort sem það eru umhverfismál, félagsmál eða önnur mál. Ég ætla á engan hátt að fullyrða það að svo verði um alla framtíð. Þessu fyrirkomulagi fylgja bæði kostir og líka verulegir gallar og ég ætla ekki að afneita því. Kostirnir eru fyrst og fremst þeir að þá heyra öll málefni er varða Keflavíkurflugvöll, samskiptin við varnarliðið og annað á þessu svæði undir eitt ráðuneyti en gallarnir eru hins vegar þeir að málefni, ekki eingöngu málefni þessarar flugstöðvar heldur önnur málefni eins og lögreglumál og tollgæslumál heyra undir tvö ráðuneyti vegna þessarar skipunar mála. Þannig er þetta og hefur ávallt verið og ef þarna verða einhverjar breytingar á þarf að mínu mati að taka á því heildstætt en ekki að því er varðar einstaka þætti þessa máls.

Um spurningu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar í sambandi við annan rekstur þá hefur farið fram veruleg starfsemi til að efla rekstur á Keflavíkurflugvelli. Til dæmis eru uppi áform um og áhugi á því að reisa byggingar í tengslum við það sem þar fer fram og mikil þörf er á því. Áreiðanlega verður það svo í framtíðinni að þarna rísi jafnvel gistiaðstaða og annað það sem tilheyrir flugvöllum sem mikil umferð er um þó að gistiaðstaða sé allgóð í Reykjanesbæ og einnig fer vonandi að verða mikil breyting í kringum Bláa lónið sem er þarna skammt frá. Allt þarf þetta því að skoðast í heild sinni.

En aðalatriðið að því er þessi mál varðar, t.d. fyrirtækið Atlanta sem hér var nefnt, er ekki síður almenn starfsskilyrði í landinu og það ágæta fyrirtæki hefur kvartað mjög undan því að bæði skattalög og ýmsar reglur standi starfsemi þeirra fyrir þrifum. Ég veit ekki betur en að nýlega hafi verið afgreiddar á hv. Alþingi breytingar á skattalögum til samræmingar við það sem gengur og gerist í alþjóðlegri starfsemi og það er afar mikilvægt að fyrirtæki okkar búi við svipaðar reglur og gerist í samkeppnislöndum okkar.

Þessi mál eins og önnur hafa verið umdeild í gegnum tíðina en ríkisstjórnin hefur lagt á það mikla áherslu að breyta starfsskilyrðum hér á landi á þann veg að sambærilegt sé við það sem gengur og gerist í kringum okkur. Þetta hefur t.d. verið gert í ferðaþjónustunni að því er varðar bílaleigubíla og ýmislegt annað hefur komið fram sem sýnir vilja ríkisstjórnarinnar í þeim efnum að bæta hérna um að því er þetta varðar.

Herra forseti. Margt hefur verið sagt í umræðunni en mjög mikið af því hefur áður komið fram. Ég hef rætt og svarað mörgum af þeim atriðum sem hér hefur borið á góma og ég vænti þess að þau svör sem hafa komið fram af minni hálfu svari þeim spurningum sem bornar voru fram þó að ég eigi ekki sérstaklega von á því að fyrirspyrjandi, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sé endilega ánægður með þau svör, en ég vona að þau séu það skýr að hann geti að því leyti til sætt sig við þau.