Mat á umhverfisáhrifum

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 15:43:09 (7590)

2000-05-12 15:43:09# 125. lþ. 117.12 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[15:43]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef kannski ekki talað nógu skýrt um skógræktarverkefnin. Ég lít svo á að þau séu tilkynningarskyld, ekki að þau eigi skilyrðislaust að fara í mat. Ég vona að ég hafi a.m.k. talað það skýrt og ef svo er ekki, vil ég að það komi skýrt fram. Ég lít svo á að þau séu tilkynningarskyld samkvæmt 2. viðauka en ekki að skylda sé að setja þau í mat skilyrðislaust samkvæmt 1. viðauka, þannig að það liggi alveg ljóst fyrir.

Hvort framkvæmdir geti farið í frekara mat þá lít ég svo á að til séu heimildir sem gefa ráðherra möguleika. Ég ætla ekki að fara nákvæmlega út í það. Ég vil aftur á móti ítreka það sem ég sagði áðan að ég álít að framkvæmdaraðili og skipulagsstjóri verði sameiginlega að vinna þannig að framkvæmd matsskýrslu að hún muni einfaldlega leiða til þeirrar niðurstöðu að báðir séu sammála þegar kemur að því að leggja hana fram. Þess vegna ætla ég ekki að fara að lesa þetta þannig að til séu ýmsar leiðir til þess að fara í ítarlegra mat. Ég lít svo á að fyrst við felldum þetta út þá sé það í algjörum undantekningartilvikum að hægt sé að ætlast til þess að ítarlegra mat fari fram og þá komi til alveg sérstakar ástæður sem hafa verið ræddar varðandi borholur eða einhver slík mál sem eru slík algjör undantekningartilfelli að ráðherra mun taka á því.