Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 18:20:58 (7641)

2000-05-12 18:20:58# 125. lþ. 117.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., Frsm. minni hluta KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[18:20]

Frsm. minni hluta menntmn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég virði það alveg að hv. þm. skuli hafa þá skoðun að með því að setja lög um ólympíska hnefaleika þá náum við yfir þessar reglur, að þá sjáum við til þess að þjálfarar séu á staðnum, læknir á staðnum, sjúkrabíll fyrir utan og allt sem við á að éta. Ég virði þá skoðun. Ég dreg hins vegar í efa að það geti gengið eftir. Á meðan ungir menn eins og þeir sem ég var að vitna til áðan hafa þessi sjónarmið sem koma fram í því viðtali sem ég vitnaði til, er ég ekkert viss um að þeir séu svo sólgnir í það í sjálfu sér að fara eftir þeim reglum sem gilda um áhugamannahnefaleika. Ég get ekki séð á þessu viðtali, sem er reyndar talsvert lengra en kom fram hér hjá mér í ræðu minni áðan, að þeir séu að iðka þessa íþrótt vegna þess að hún sé göfug á einn eða annan hátt, vegna þess að í henni séu reglur sem geri hana spennandi eða agi sem geri hana spennandi eða að loturnar séu svo og svo snarpar eða eitthvað. Ekkert um þetta kemur fram og ekkert af þessu gerir þessa íþrótt áhugaverða fyrir þessa ungu menn, heldur hitt að það er svo rosalega gaman að berja bestu vini sína.