Samkeppnislög

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 22:53:53 (7669)

2000-05-12 22:53:53# 125. lþ. 117.13 fundur 488. mál: #A samkeppnislög# (samstarf fyrirtækja, markaðsráðandi staða, samruni o.fl.) frv. 107/2000, Frsm. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[22:53]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Við ræðum samkeppnislög og ég geri nú grein fyrir áliti minni hluta efh.- og viðskn.

Ég vil segja það fyrst almennt um frv. að eins og það kom fram á hinu háa Alþingi hafi það verið mjög vandað og vel að verki staðið og hæstv. viðskrh. til mikils sóma. Ég er hins vegar mikill efasemdarmaður hvað varðar þær breytingar sem meiri hluti efh.- og viðskn. hefur lagt til og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, formaður nefndarinnar, hefur talað fyrir. Af þeim ástæðum erum við með minnihlutaálit, ég, hv. þm. Margrét Frímannsdóttir og hv. þm. Ögmundur Jónasson.

Virðulegi forseti. Í áliti meiri hluta nefndarinnar er í aðalatriðum lagt til að gerðar verði tvenns konar breytingar á samrunaákvæði 10. gr. frumvarpsins. Annars vegar að tekin verði upp tilkynningarskylda á samruna og hins vegar að tilteknir samrunar verði teknir undan gildissviði ákvæðisins. Minni hlutinn telur til bóta að taka upp tilkynningarskyldu á samruna og getur stutt þá breytingu. Hins vegar er að mati minni hlutans með öllu ástæðulaust að þrengja gildissvið samrunareglna frumvarpsins. Samkvæmt tillögu meiri hlutans fellur utan ákvæðisins samruni þar sem viðkomandi fyrirtæki hafa sameiginlega minna en 1 milljarð kr. í veltu og samruni sem uppfyllir ekki það skilyrði að tveir aðilar hans hafi hvor um sig 50 millj. kr. í veltu.

Minni hlutinn telur þó jákvætt að ákvæðið er orðað þannig að komið er í veg fyrir svonefnda ,,leppun``. Þannig geta fyrirtæki ekki stofnað nýjar lögpersónur til að komast fram hjá samrunareglum. Eins og ákvæðið ber með sér verður við mat á því hvort 1 milljarðs kr. markinu er náð að telja með veltu móður- og dótturfyrirtækja og annarra tengdra fyrirtækja. Á hinn bóginn er ekkert að finna um það í nefndaráliti meiri hlutans hvort sama eigi við um fyrirtæki sem ekki ná 50 millj. kr. veltu. Ef hugmyndin að baki breytingartillögu meiri hlutans er sú að mögulegt verði fyrir fyrirtæki að skipta sér upp áður en til samruna kemur er ljóst að verið er að brjóta samrunaákvæði frumvarpsins á bak aftur.

Á sama hátt vakna spurningar um áhrif breytinganna, sem meiri hlutinn leggur til á 10. gr. frumvarpsins, sem vísar í 4. gr. frumvarpsins um bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu, þ.e. tengingu þessara ákvæða. Viðurkennt hefur verið að fyrirtæki getur misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að kaupa upp fyrirtæki sem eru í samkeppni við það. Því vaknar sú spurning hvort með tillögu meiri hlutans sé verið að koma því til leiðar að slík uppkaup á samkeppni séu undanþegin ákvæðum samkeppnislaga ef velta fyrirtækisins nær ekki 50 millj. kr.

Í ljósi smæðar hins íslenska markaðar, landfræðilegrar einangrunar hans og þeirrar fákeppni sem víða ríkir er að mati minni hlutans óásættanlegt að veikja samrunareglurnar að þessu leyti. Sérstaða hins íslenska markaðar að þessu leyti kallar á sterkar en ekki veikar samkeppnisreglur. Ljóst er að mati minni hlutans að samruni sem ekki fellur undir gildissvið ákvæðisins getur haft alvarleg áhrif á samkeppni, t.d. á einangruðum mörkuðum á landsbyggðinni. Jafnframt getur það haft óheppileg áhrif á þróun samkeppni á ýmsum nýjum mörkuðum, t.d. á sviði upplýsingatækni, ef samruni stærri fyrirtækis við fyrirtæki sem enn hefur ekki náð 50 millj. kr. veltu fellur utan ákvæðisins. Þegar á heildina er litið getur minni hlutinn því ekki stutt þá breytingartillögu sem formaður efh.- og viðskn. hefur nú mælt fyrir.

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi í upphafi held ég það frv. sem hæstv. viðskrh. lagði hér fyrir þingið sé eitt af betri frv. sem hingað hafa komið enda er það svo að fyrir utan þær efnisbreytingar sem sérstaklega fulltrúar Sjálfstfl. í efh.- og viðskn. lögðu áherslu á, eru litlar sem engar breytingar gerðar á frv. þegar á heild þess er litið. Hins vegar er mjög mikilvægt að við skiljum vel þær breytingar sem hér er verið að leggja til og áttum okkur almennilega á því hvað í þeim felst. Eins og breytingarnar eru settar fram í nefndaráliti meiri hlutans, liggur ekki ljóst fyrir hvað átt er við. Þar sem hæstv. viðskrh. er hér vildi ég því beina til hennar a.m.k. einni eða tveimur litlu spurningum sem hugsanlega gætu varpað ljósi á efni þessara tillagna ríkisstjórnarinnar eða fulltrúa hennar sem hér hefur verið mælt fyrir.

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi vil ég beina því til hæstv. viðskrh. hvort skilningur minn á þessu sé réttur, þ.e. hvort ekki séu talin með móðurfyrirtæki og tengd fyrirtæki þegar metið er hvort tveir aðilar hafi 50 millj. kr. veltu eða ekki þannig að ekki sé mögulegt að brjóta niður einstök fyrirtæki áður en til einhvers samruna kemur í því skyni að koma sér hjá þessari minniháttarreglu sem lýtur að 50 millj. kr. markinu. Það er mjög mikilvægt að þessi skilningur sé staðfestur því ekki er gott að greina hvað átt er við þegar tillaga meiri hlutans er lesin.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, vil ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. viðskrh. hvort því markmiði sem tekið er fram í lögunum og að er stefnt, þ.e. að banna markaðsráðandi stöðu, sé stefnt í hættu með þessari breytingartillögu því það verður að liggja alveg ljóst fyrir að ef fyrirtæki með markaðsráðandi stöðu er að kaupa upp fyrirtæki þá verður slíkt ákvæði nánast marklaust ef þar verður miðað við 50 millj. kr. markið. Því vil ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. viðskrh. hvort það sé ekki réttur skilningur hjá mér að þrátt fyrir þetta ákvæði geti yfirvöld beitt ákvæðinu um markaðsráðandi stöðu í ákveðnum tilvikum ef menn eru að styrkja stöðu sína langt umfram það sem eðlilegt má telja.

Ég vil beina þessum tveimur spurningum til hæstv. viðskrh. og bið hana hér að svara því hvort skilningur minn á þessu máli sé ekki réttur. Að öðru leyti þakka ég fyrir samstarfið í efh.- og viðskn. og þakka formanni efh.- og viðskn. fyrir ágætt samstarf. Ég sat þar skamman tíma, m.a. er þetta mál var tekið þar fyrir. En ég ítreka spurningar mínar til hæstv. viðskrh.