Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 12:08:23 (7741)

2000-05-13 12:08:23# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[12:08]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að þeir aðilar eru til sem ekki geta stofnað stéttarfélag og samið um laun sín þannig enda tók ég það fram að hvað þá aðila snerti væri eðlilegt að Alþingi taki þá ábyrgð og axli þá ábyrgð en skjóti henni ekki til aðila á borð við Kjaradóm. Þetta er umræða sem við margoft höfum átt á Alþingi.

Varðandi mismunandi skoðanir á því hvernig eigi að bæta forseta lýðveldisins upp kjararýrnun sem af þessu hlytist er það því miður ekki á verksviði Alþingis. Við getum lýst skoðunum okkar á því og við höfum gert það. Menn hafa talað tæpitungulaust margir í því efni. Það hef ég gert á meðal annarra. En það er samkvæmt lögum og ákvörðunum Alþingis á verksviði Kjaradóms. Síðan getum við haft á því skoðun þegar hann kveður upp úrskurð sinn og ég hef ekki nokkrar einustu efasemdir um það að ég muni hafa á því skoðun þegar þar að kemur.