Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 16:48:21 (7774)

2000-05-13 16:48:21# 125. lþ. 118.8 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, 571. mál: #A jarðgangaáætlun 2000-2004# þál. 24/125, JónK
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[16:48]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð við umræðuna nú þegar vegáætlun og jarðgangaáætlun eru komnar til síðari umræðu eftir meðferð í samgn. Ég vildi undirstrika nokkur atriði um afstöðu fulltrúa Framsfl. í nefndinni.

Með vegáætluninni eru mörkuð nokkur tímamót. Vegagerð fær vissan forgang í framkvæmdum með þessari áætlun sem er mjög viðamikil. Ef þetta gengur allt saman fram á tímabilinu verður öðruvísi umhorfs í vegakerfi landsins eftir áætlunartímabilið.

Raktar er þær brtt. sem gerðar voru í meðförum nefndarinnar en þær eru viðamiklar að vöxtum. Í fyrsta lagi er jarðgangaáætlun felld að vegáætlun. Í öðru lagi er ákveðið að taka upp sérstök verkefni á árunum 2002--2004 upp á liðlega 3 milljarða kr. Síðan er ákveðið að fara í orku- og iðjuvegi á Austurlandi fyrir um 1.000 millj., einnig að efla og auka framlög til ferðamannaleiða og bæta við nokkrum fjármunum í að styrkja almenningssamgöngur á landsbyggðinni sem er afar mikilvægt. Ég vil leggja áherslu á að halda áfram vinnu í þeim málum sem ég veit að hefur verið í skoðun í samgrn. því að skórinn kreppir virkilega að í ýmsum byggðarlögum úti á landi.

Í þessi sérstöku verkefni, sem eru upp á 3,2 milljarða kr., hefur verið varið verulegum upphæðum í verkefni á höfuðborgarsvæðinu. Ég vona að með þessari uppsetningu vegáætlunar náist sátt um framlög til vegamála meðal þjóðarinnar. Ég tel afar mikilvægt að ekki ríki styrjaldarástand um þessi mál, það mikilvæga mál sem er uppbygging samgöngukerfisins í landinu.

Auðvitað veit ég af langri reynslu af vinnu við þessi mál að það er víða sem skórinn kreppir í vegamálum og það er víða sem fólk verður að búa við það enn þá að fara eftir slæmum malarvegum. Því miður verða þeir kaflar sem eftir eru illþolanlegri og hættulegri eftir því sem vegakerfið batnar. Ég vil halda þessu til haga núna í öllu þessu tali um stór verkefni. Það er svo að vegaframkvæmdir víða um land eru til að bæta vegina þannig að á þeim sé slitlag og um þá sé þolanlegt að fara en á höfuðborgarsvæðinu eru önnur sjónarmið. Það eru öryggissjónarmið, umferðarþungi sem ræður, sem er alveg skiljanlegt. Þessi sjónarmið verður að samræma og ég vona að áætlunin sé lóð á þá vogarskál.

Ég vil forðast að tala um vegamál í þeim tón sem ég sá reyndar í einu dagblaðanna í dag þar sem dregið er upp að verið sé að verja þvílíkum upphæðum til vegamála að alveg eins mætti kaupa íbúðir á Spáni fyrir helminginn af þjóðinni fyrir þá upphæð sem varið er til vegamála. Ég vona að þessi tónn sé svolítið einstakur og ég vil forðast að umræða um vegamál og samgöngumál falli í slíka gryfju ef svo má segja.

Það er rétt sem hefur komið fram að hér er um áætlun að ræða. Hún verður endurskoðuð. Langtímaáætlun verður endurskoðuð árið 2002. Miklar fjárhæðir eru settar inn í þessa áætlun eftir þann tíma. Umræða hefur verið um hvaða áhrif þessi áætlun hafi á efnahagslífið og þensluna. Ég vil taka fram að víða í þeim landshlutum sem stórframkvæmdir eru samkvæmt þessari áætlun er þenslan minni en á höfuðborgarsvæðinu og við ölum auðvitað þá von og það verður að stýra málum þannig næstu árin að við ráðum við þensluna og getum dregið úr framkvæmdum á einhverjum öðrum sviðum til að vega upp á móti þessu. Ástæða er til að hugleiða þennan þátt málsins. Ég dreg ekkert úr því en vonandi ráðum við við þann þátt og engin ástæða er til að fyllast örvæntingu í því efni.

Ég vil einnig koma inn á að það er mikið fagnaðarefni að nú skuli hafa tekist að setja upp langtímaáætlun, að setja upp í rauninni áætlun til fimm ára því að undirbúningur framkvæmda tekur alltaf lengri og lengri tíma. Vegaframkvæmdir fara í umhverfismat. Vegaframkvæmdir eru þáttur af skipulagsmálum þéttbýlisstaða og það er alveg nauðsynlegt að vegaframkvæmdir hafi aðdraganda þannig að Vegagerðin hafi svigrúm og möguleika til þess að vinna málin með viðhlítandi hætti. Ég vil koma inn á þennan þátt málsins sérstaklega og undirstrika þörfina á þessu.

Það er mikið verk sem Vegagerðin þarf að vinna í rannsóknum, í undirbúningi að vegaframkvæmdum, í jarðgangarannsóknum svo dæmi séu tekin um stærstu framkvæmdirnar undir þessari áætlun og það er heljarverk að fella stórframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu að skipulagi þeirra þéttbýlisstaða sem í hlut eiga.

Varðandi fjármögnunina sem hefur líka verið til umræðu er rétt að ríkisstjórnin hefur sett sér að nota ágóða af sölu ríkisfyrirtækja til að fjármagna þessar framkvæmdir. Mesti þunginn í því verður á seinni hluta áætlunartímabilsins. Ég tel að þessi aðferð sé góð og gild. Auðvitað verður að vanda undirbúning að sölu ríkisfyrirtækja og það er annar þáttur málsins en ég tel að það sé góð og gild ráðstöfun á þeim fjármunum sem inn koma fyrir þá sölu, hvaða skoðanir sem menn hafa annars á henni, að verja þeim fjármunum til nýrra fjárfestinga. Ef það væri ekki gert, ef þyrfti að afla peninga til þessarar áætlunar með hækkun á bensíni eða beinum skattahækkunum, mundi það hafa mikil verðlagsáhrif.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna. Ég fagna því að í þessari áætlun eru framlög til orku- og iðjuvega á Austurlandi sem eru tákn um að ekki muni standa á þeim þætti málsins varðandi þau áform sem eru þar uppi og þessi framlög munu nýtast í almennri vegagerð á Austurlandi vegna þess að þarna er um að ræða vegi sem liggja um byggð milli þéttbýlisstaðanna Reyðarfjarðar og Eskifjarðar. Þetta er líka hluti af hringleiðinni um Lagarfljót sem er vinsæl ferðamannaleið á Héraði. Þarna fara hagsmunir saman, hins almenna efnahagslífs og mannlífs og áformin um þær framkvæmdir þar sem undirbúningur hefur staðið að í nokkurn tíma og ég ætla ekki að rekja það stóra mál hér.

Ég vil ljúka máli mínu með því að setja fram vonir um að þessi áætlun gangi eftir því að ef hún gerir það á þessu fimm ára tímabili verður þar mikil bylting í vegamálum en til þess þarf að halda á spöðunum eins og ég kom inn á, bæði í undirbúningi mála og að rannsóknir gangi sem allra fyrst fram. Ég vil leggja sérstaka áherslu á það varðandi jarðgangarannsóknirnar að farið verði í þær af fullum krafti, fyrst í þær rannsóknir sem varða jarðgöngin milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar og frá Siglufirði í gegnum Héðinsfjörð til Ólafsfjarðar og ekki síður að unnið verði að þeim rannsóknum sem markaðar eru í jarðgangaáætluninni.