Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Mánudaginn 04. október 1999, kl. 21:29:58 (18)

1999-10-04 21:29:58# 125. lþ. 2.1 fundur 28#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, DrH
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 125. lþ.

[21:29]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Hið þriðja kjörtímabil er hafið þar sem Sjálfstfl. fer með forustu í ríkisstjórn Íslands. Mikið umbótastarf hefur farið fram þessi ár og þjóðin hefur uppskorið árangur af þeim umskiptum sem hafa orðið í atvinnulífinu og landstjórninni undir forustu Sjálfstfl.

[21:30]

Fyrir aðeins fjórum árum var atvinnuleysi aðaláhyggjuefnið og ríkissjóður var rekinn með halla. Á þessu hefur orðið mikil breyting. Þúsundir nýrra starfa hafa skapast, atvinnuleysi er með því minnsta í heiminum, kaupmáttur hefur aukist og lífskjör í heild batnað til muna. Framfara og velmegunar sér víða stað enda tekjur þjóðarinnar hærri en nokkru sinni fyrr og Ísland hefur nú síðustu ár skipað sér í fremstu röð meðal þjóða heimsins.

Þessi árangur var ekki sjálfgefinn. Það þurfti styrka stjórn, ráðdeild og aðhald til að ná þessum markmiðum. Nú hefur það gerst að fjárlög næsta árs gera ráð fyrir miklum afkomubata og er tekjuafgangur ráðgerður 15 milljarðar kr. og skuldir ríkissjóðs hafa minnkað jafnt og þétt síðustu fjögur ár.

Í ljósi þessa sætir það furðu hvernig stjórnarandstaðan hagar málflutningi sínum hér í kvöld. Allt ber að sama brunni. Það eru engar nýjar hugmyndir, ekkert uppbyggilegt innlegg í viðfangsefni dagsins, aðeins gamlar lummur vinstri stefnunnar sem eins og reynslan kennir skapa uppnám og öngþveiti í efnahagskerfinu.

Herra forseti. Landbúnaður er og verður mikilvægur þáttur í atvinnulífi þjóðarinnar og hann hefur fyllilega lagt sitt af mörkum til betri lífskjara í landinu. Eins og fram kom hjá forsrh. vill ríkisstjórnin tryggja og treysta íslenskan landbúnað og skapa þeim er landbúnað stunda sem besta afkomu.

Miklar framfarir hafa orðið í landbúnaði hvað varðar tækni og kunnáttu. Kornrækt er í örum vexti í landinu þótt hún njóti ekki opinbers stuðnings í þeim mæli sem gerist í nálægum löndum, en hér er hún vistvænni og eiturefnalaus á meðan bændur í nágrannalöndum okkar verða að eitra akra sína margsinnis yfir vaxtartímann. Stefnan í landbúnaðarmálum er líka nátengd byggðamálum. Þau verða ekki leyst án öflugs landbúnaðar.

Nýjasta tækni hefur líka skapað ný sóknarfæri í atvinnumálum hinna dreifðu byggða. Þar á ég við upplýsingatækni og fjarvinnslu sem nú er að ryðja sér til rúms. Hið opinbera mun stuðla að því að slík tækifæri verði nýtt til þess að skapa atvinnu um leið og fólki gefast aukin tækifæri til þess að velja sér búsetu á stöðum fjarri ys þéttbýlisins.

Íslensk garðyrkja er vaxandi atvinnugrein sem vissulega á möguleika til framtíðar með bættum starfsskilyrðum, svo sem með lækkuðu raforkuverði. Nú er unnið að gerð búvörusamnings í sauðfjárrækt, en alvarlegar blikur eru á lofti í sauðfjárræktinni. Eina von sauðfjárræktarinnar er að treysta á útflutning og hagræðingu. Margir sauðfjárbændur sem búa á hinum svokölluðu jaðarbyggðum bíða á milli vonar og ótta eftir því að sjá hvernig búvörusamningurinn lítur út því að með honum mun framtíð þeirra flestra ráðast. En öflugur og vel rekinn landbúnaður er þáttur í sjálfstæði hverrar þjóðar og það verður að leggja áherslu á að hann búi við sanngjörn skilyrði við framleiðslu á hollum og góðum vörum.

Ísland er land tækifæranna. Bjartsýni ríkir með þjóðinni og unga fólkið sem nú haslar sér völl í námi og starfi hefur fleiri tækifæri en nokkur kynslóð á undan henni. Menntun og þekking er nú frekar en nokkru sinni fyrr ráðandi um afkomu og árangur okkar sem þjóðar. Mikil og öflug uppbygging hefur verið unnin í menntamálum á öllum sviðum undanfarin ár.

Unga kynslóðin mætir líka ýmsum hættum og foreldrar óttast fátt meira en að börn þeirra verði fíkniefnum að bráð. Sá vágestur ógnar okkar samfélagi sem öðrum. Á síðasta kjörtímabili var baráttan gegn innflutningi og dreifingu fíkniefna mjög hert um leið og sölumenn dauðans hertu til muna áreiti sitt við íslenskt æskufólk. En dreifing eiturlyfja um hnöttinn fer eins og kunnugt er fram á vegum alþjóðlegra glæpasamtaka sem síðan eiga sér tengiliði hér á landi.

Þessari baráttu verður vissulega haldið áfram af enn þá meiri krafti af lögreglu okkar og dómsmálakerfi undir forustu Sólveigar Pétursdóttur dómsmrh. Löggæslan er í sókn eins og atburðir undanfarinna vikna sýna svart á hvítu. Það er lykilatriði að löggæslan verði styrkt enn frekar svo að ná megi enn betri árangri í baráttunni gegn afbrotum. Mikilvægt er að lögreglan verði sýnileg borgurunum, t.d. með eflingu grenndarlöggæslu og nánari samstarfi við almenning. Ef allir leggjast á eitt náum við betri árangri.

Fyrirhugaðar eru breytingar á löggjöf sem geta orðið beitt vopn í baráttunni gegn afbrotum. Þar er fyrst til að taka endurskoðun sem nú fer fram í dómsmrn. á ákvæðum hegningarlaga um upptöku hagnaðar á ólöglegri brotastarfsemi. Við gerum afbrotamennina vitaskuld fráhverfari iðju sinni ef þeir eiga á hættu að njóta í engu ávinnings afbrotanna. Gróðavonin er jú hvati brotanna.

Við höfum verið í sókn í jafnréttismálum á síðasta kjörtímabili sem heldur nú áfram af vaxandi þunga. Þetta hefur vakið alþjóðlega athygli og viðurkenningu og því hefur ríkisstjórnin haft forgöngu um alþjóðlega ráðstefnu um konur og lýðræði.

Herra forseti. Reynslan sýnir að frelsi til orða og athafna hefur lagt grunninn að bættri stöðu kvenna og meira jafnrétti. Á þeim grundvelli hljótum við að vinna áfram og stefna ótrauð til frekari framfara.