Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 06. október 1999, kl. 15:12:58 (115)

1999-10-06 15:12:58# 125. lþ. 4.2 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 125. lþ.

[15:12]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að ræður tveggja þingmanna Samfylkingarinnar í þessari umræðu eru út og suður. Fyrst svarar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fyrirspurnum mínum um þetta mál og ber til baka allt um að nokkur áform hafi verið uppi um að leggja á umhverfisskatt. Hún telur það bara ekki rétt. Síðan kemur hv. þm. Össur Skarphéðinsson og staðfestir að það hafi verið stefna Samfylkingarinnar að leggja á skatta og beita eigi skattlagningu til að draga úr losun koltvísýrings. Það verður ekki gert nema að auka skattinn sem fyrir er því að annars verða engin áhrif af því að leggja á skattinn. Þetta er alveg morgunljóst.

Það er athyglisvert að þingmenn Samfylkingarinnar, sérstaklega hv. þm. Össur Skarphéðinsson, eru á harðahlaupum frá þeirri stefnu sinni í aðdraganda síðustu alþingiskosninga að áforma aukin álög á bifreiðaeigendur. Það er það sem er að gerast. Hv. þm. Samfylkingarinnar eru að hlaupa frá kosningastefnuskrá sinni. Það er svo sem ekki í fyrsta sinnið sem þingmenn úr þeirri áttinni snúa við blaðinu á miðri leið. (Gripið fram í.) Má ég minna hv. þm. Össur Skarphéðinsson á að meðan Alþfl. fór með iðnrn. og umhvrn. þá var ekki mikill bilbugur á þeim í áformum um að koma upp álveri og virkja stórt. Þau áform liggja fyrir og leyfi var veitt til framkvæmda. Kannski hefur það valdið snúningi þingmanna Alþfl. í þessum málum að þeir eru ekki lengur í stjórn heldur í stjórnarandstöðu. Kannski veldur það líka viðhorfsbreytingum þingmanna Alþfl., nú þingmanna Samfylkingarinnar, á afstöðu til álvers að það er ekki lengur áformað að reisa álverið á Keilisnesi í Reykjaneskjördæmi heldur á landsbyggðinni. Hver veit? Þeir geta svarað því.