Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 06. október 1999, kl. 15:15:12 (116)

1999-10-06 15:15:12# 125. lþ. 4.2 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 125. lþ.

[15:15]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er gaman að hlusta á hv. þm. Kristin H. Gunnarsson ræða um sinnaskipti þeirra sem hverfa milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Það er eins og ég muni eftir hávöxnum vestfirskum þingmanni sem var ekki mjög hrifinn af álverum fyrir nokkrum mánuðum. En ég ætla ekki gera það að meginefni svars míns. Hv. þm. heldur því fram að við í Samfylkingunni höfum verið að reyna að hlaupa frá hugmyndum okkar um umhverfisskatta.

Herra forseti. Sá sem hér stendur var eitt sinn umhvrh. og beitti sér þá fyrir því sem VSÍ hefur kallað, þegar upp var staðið, afar vel heppnaða skattlagningu. Það var spilliefnagjald. Það var Alþfl. og sá sem hér stendur sem hafði frumkvæði að því. Það vorum við líka sem tókum upp skilagjald á ýmsa hluti sem er líka ein tegund umhverfisskatta. Það er því algjörlega út í hött að við séum að hlaupa frá hugmyndum okkar. En við höfum hins vegar aldrei haldið því fram, hvorki í kosningabaráttu né núna að við ætluðum að leggja á einhvers konar gróðurhúsaskatt eða koltvísýringsskatt sem mundi leiða til hækkunar á gjaldi eða á bensíngjaldi. Þvert á móti kom það fram í kosningabaráttunni, alveg eins og ég er búinn að tyggja hérna margsinnis ofan í þennan ágæta þingmann, að það sem við vildum gera er að taka þessi ferns konar gjöld af og setja í staðinn umhverfisgjald sem mun þegar upp er staðið leiða til minni orkunotkunar, minni útblásturs og minni skatta og mun samkvæmt sérfræðingum Framsfl. í umhvrn. ekki leiða til skattahækkunar. Það er því morgunljóst hvað hér er um að ræða. En auðvitað hefur hv. þm. bara lent í því að hann vissi ekki stefnu síns eigin flokks og ég fyrirgef honum það, því það er svo skammt síðan hann gekk í hann.