Aðgangur að sjúkraskýrslum

Miðvikudaginn 06. október 1999, kl. 16:12:08 (137)

1999-10-06 16:12:08# 125. lþ. 4.94 fundur 35#B aðgangur að sjúkraskýrslum# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 125. lþ.

[16:12]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu, líka hinar kostulegu ræður sem þeir fluttu hv. þm. Tómas Ingi Olrich og Kristinn H. Gunnarsson. Þeir segjast ekki skilja málavöxtu eða koma auga á rök í þessu máli. Þetta mál er siðferðilegs eðlis og það er vissulega ekkert nýtt að þeir fái ekki komið auga á það þegar gagnagrunnurinn er annars vegar.

Það sem mér finnst óhugnanlegast í þessu máli og nú hefur komið berlega í ljós er að ríkisstjórninni er ekki treystandi í samningum um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði, ekki treystandi í samningum við Íslenska erfðagreiningu. Það er líka alvarlegt ef ekki er hægt að bera traust til þeirra stofnana sem eiga að standa vörð um almannaheill. Hér nefni ég vísindasiðanefnd, þá vísindasiðanefnd sem nú situr og er orðin í ríkari mæli framlenging á ráðherravaldi. Sú sem áður sat var rekin vegna þess að ríkisstjórnin óttaðist að hún mundi standa í fæturna í samningaviðræðum við Íslenska erfðagreiningu um gagnagrunninn. Síðan nefni ég tölvunefnd, sem hefur fullkomlega brugðist í þessu máli. Ég nefndi hér í framsögu minni heilbrigðisstéttirnar og ég fagna þeirri yfirlýsingu sem kom frá Læknafélaginu. Þeir koma auga á staðreyndir málsins og segja, með leyfi forseta:

,,Slík skoðun sem nú hefur verið heimiluð á sjúkraskýrslum samræmist hvorki landslögum né siðareglum lækna.``

Að lokum vil ég vekja athygli á einu, herra forseti. Nú er væntanleg álitsgerð frá alþjóðasamtökum lækna, World Medical Association, um hvernig skuli fara með sjúkraskýrslur með sérstakri hliðsjón af þeim samningum sem íslenska ríkisstjórnin er að gera við Íslenska erfðagreiningu um persónuvernd. Þetta er væntanlegt núna á næstu dögum. Ég vek athygli á þessu og ég höfða til fjölmiðla um að rýna í þessa niðurstöðu. Ég beini því til hæstv. heilbrrh., sem svaraði hér með þeim skrifræðisrökum að persónuverndin heyrði ekki undir sitt ráðuneyti, að hagur sjúklinga gerir það. Réttindi þeirra heyra undir hana og þeir samningar sem gerðir eru við Íslenskra erfðagreiningu gera það. Ég spyr hæstv. ráðherra að lokum: Mun ráðherrann taka mið af niðurstöðum og ábendingum sem koma frá alþjóðasamtökum lækna og eru væntanlegar sennilega á næstu klukkustundum?