Aðgangur að sjúkraskýrslum

Miðvikudaginn 06. október 1999, kl. 16:14:51 (138)

1999-10-06 16:14:51# 125. lþ. 4.94 fundur 35#B aðgangur að sjúkraskýrslum# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 125. lþ.

[16:14]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Málflutningur 13. þm. Reykv. staðfestir harða andstöðu hans við lög um gagnagrunn á heilbrigðissviði. Það kemur engum á óvart. Aðalatriði málsins eru að tölvunefnd hefur tryggt persónuvernd borgaranna í skilyrðum sínum. (Gripið fram í: Ekki segir Læknafélagið.)

Samtökin Mannvernd hafa gert athugasemd við málið, landlæknir hefur ritað Sjúkrahúsi Reykjavíkur og nú hefur stjórn Læknafélagsins slegist í þennan hóp.

Ég geri ekki kröfur til stjórnar Læknafélagsins í þessu máli en ég fer fram á að alþingismenn fari eftir leikreglum í málinu og hræri ekki öllu saman í einn graut til þess eins að koma á framfæri gagnrýni á lög sem Alþingi hefur samþykkt. Það stendur ekki til að flytja neinar upplýsingar í gagnagrunn úr þeim 30 sjúkraskrám sem hér um ræðir. Tölvunefnd setur ströng skilyrði um vinnulag. Og mótmælin, burt séð hvort þau koma frá Mannvernd, Læknafélaginu, landlækni eða vinstri grænum, verða menn að senda á rétt heimilisfang ef þeir hafa áhyggjur af persónuvernd. Ég endurtek: Ef þeir hafa áhyggjur af persónuvernd.

[16:15]