Viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 15:06:20 (294)

1999-10-11 15:06:20# 125. lþ. 6.91 fundur 52#B viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[15:06]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég met ágæt viðbrögð hæstv. utanrrh. og skil orð hans svo að það verði rætt í ríkisstjórninni að menn skipuleggi tíma sinn þannig að þeir setji þennan fyrirspurnatíma á Alþingi í forgang. Ég fer alls ekki fram á að þessi fyrirspurnatími verði felldur niður. Ég reikna með því að alþingismenn beri fram einhverjar fyrirspurnir til þeirra sem hér eru. Sérstaklega býst ég við að alþingismenn meti það að utanrrh. er í þessum fyrirspurnatíma vegna þess að eðli málsins samkvæmt er hann mjög oft fjarri þegar fyrirspurnatímar af þessu tagi eru á dagskrá. Ég fer því ekki fram á að þessum tíma verði frestað en við munum að sjálfsögðu fylgja því mjög vel eftir að úrbætur verði í þessum efnum vegna þess, herra forseti, að því miður virðist hafa verið nokkur slappleiki í samskiptum ráðherra og Alþingis. Það hefur komið fram á mörgum sviðum. Ég vona að það verði ekki eingöngu á þessum vettvangi óundirbúinna fyrirspurna sem menn taki sig á heldur að ráðherrar taki sig almennt á í samskiptum sínum við þingið.