Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 17:34:24 (346)

1999-10-11 17:34:24# 125. lþ. 6.4 fundur 6. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[17:34]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Sú var tíðin að menn ræddu hvort þeir vildu blandað hagkerfi. Þessu var oft beint gegn vinstri mönnum, að þeir væru andvígir blönduðu hagkerfi. Nú er rétt að snúa þessu við og spyrja hægri mennina að því hvort þeir séu hlynntir eða andvígir blönduðu hagkerfi. Ég er hlynntur blönduðu hagkerfi. Ég vil hafa öflugan ríkisbanka sem lýtur forsjá almennings en síðan vil ég að sjálfsögðu að þar við hlið blómstri aðrar fjármálastofnanir.

Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði erum hlynnt blönduðu hagkerfi. Við viljum ekki einsleitni í þessum efnum. Það eru aðrir sem hafa tekið upp það merki.