Textun íslensks sjónvarpsefnis

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 12:39:10 (1369)

1999-11-12 12:39:10# 125. lþ. 24.10 fundur 141. mál: #A textun íslensks sjónvarpsefnis# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[12:39]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Hér er afar mikilvægt þingmál til umfjöllunar, um textun íslensks sjónvarpsefnis. Ég þakka þingmönnunum Sigríði Jóhannesdóttur, Þórunni Sveinbjarnardóttur og Jóhanni Ársælssyni, þingmönnum Samfylkingarinnar, fyrir að hafa hreyft þessu máli.

Þetta mál tengist jafnframt öðru afar mikilvægu þingmáli sem þingmenn Samfylkingar hafa flutt margsinnis. Það mál er viðurkenning á því að táknmál heyrnarlausra sé móðurmál þeirra. Það er eiginlega með ólíkindum hve oft það mál hefur komið fyrir þingið. Við þær umræður hafa allir gert sér grein fyrir því að það er réttindamál. Það er hagsmunamál heyrnarlausra og ætti fyrir löngu að vera búið að festa það í lög að táknmál sé móðurmál heyrnarlausra.

Það er ekki víst, herra forseti, að þeir sem heyrt hafa þessar kröfur, sem heyrnarlausir hafa barist fyrir í mörg ár, geri sér grein fyrir hve margt hangir á þeirri spýtu. Ef táknmál væri viðurkennt móðurmál heyrnarlausra væri að sjálfsögðu skylda að texta íslenskt sjónvarpsefni til þess að allir þegnar landsins hefðu að því aðgang á móðurmáli sínu. Það hefur ekki náðst í gegn og ákveðinn hópur í þjóðfélaginu fær ekki notið þeirra réttinda sem hann á skilið í íslensku samfélagi.

Þess vegna er þessi tillaga mjög góð. Hún er mjög brýn í ljósi þess að hitt málið hefur ekki enn þá náðst fram en við munum halda áfram að fylgja því eftir. Ég tel afar mikilvægt, herra forseti, að þessi tillaga fái góða umfjöllun í þingnefndinni og hv. þm. sameinist um að senda þau skilaboð frá Alþingi til þeirra sem valdið hafa að virkileg þörf sé á að þessi þjóðfélagshópur fái notið íslensks sjónvarpsefnis. Þrýstingur á þetta er stöðugt að aukast. Textun íslensks sjónvarpsefnis mundi efla menningu okkar og þekkingu og væri auðvitað gífurlega fræðandi. Við eigum að sameinast um að tryggja að þessi þjóðfélagshópur fái þessi réttindi samhliða því sem við vinnum að því að fá lögbundið að táknmálið sé móðurmál heyrnarlausra. Það munum við þingmenn Samfylkingarinnar gera.