Einkavæðing ríkisfyrirtækja og dreifð eignaraðild

Mánudaginn 15. nóvember 1999, kl. 17:02:17 (1422)

1999-11-15 17:02:17# 125. lþ. 25.93 fundur 150#B einkavæðing ríkisfyrirtækja og dreifð eignaraðild# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 125. lþ.

[17:02]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég vil þakka mönnum fyrir umræðurnar, þær hafa verið gagnlegar og góðar, hygg ég. Ég þakka einnig fyrir að flestir hafa látið þau ummæli í ljós að þegar á heildina sé litið, nú þegar upp er staðið og þegar að leikslokum er spurt hafi sala þessa ríkisfyrirtækis farið vel og ríkissjóður megi a.m.k. afar vel við una. Það held ég sé niðurstaða sem menn geta út af fyrir sig ekki deilt um. Ég er ánægður með það.

Ég vil minna á að þegar þessi banki var í fæðingu í tíð ríkisstjórnarinnar 1991--1995 voru nokkuð deildar meiningar um hvernig standa ætti að málum. Sumir vildu búa til tvo banka sem áfram yrðu tengdir og eyrnamerktir tilteknum atvinnugreinum, annars vegar sjávarútvegi og hins vegar iðnaði. Þáv. iðn.- og viðskrh. lýsti því reyndar yfir í sérstöku afmælishaldi að iðnaðurinn fengi annan bankann til sín. Ég var aldrei sammála því, ég var ekki hlynntur því. (Gripið fram í.) --- Ég heyrði ekki hvað hv. þm. kallaði frammí. --- Ég var ekki sammála því vegna þess að mér þótti þýðingarmikið og mikilvægt að brjóta upp þessa bindingu og stofna til banka sem ekki væri bundinn slíkum hindrunum þannig að allar greinar ættu jafngreiðan aðgang að þeirri bankastofnun. Sú varð niðurstaðan, sú leið var farin og til þessa banka var stofnað.

Ég man líka að mjög margir reyndir og ágætir menn í bankaheiminum voru andvígir því og sögðu að alls ekki væri þörf á slíkum banka, þetta væri eitt það vitlausasta sem menn gætu gert þ.e. að fækka bönkum, sameina þá og stækka og stofna síðan til nýs banka eins og Fjárfestingarbankans. Þetta var ekkert óeðlilegt sjónarmið að mínu mati. En ég hygg að menn telji núorðið að þessa banka sé þörf og hann eigi sér gott og mikið hlutverk.

Ég get líka sagt frá því hér, það er ekkert leyndarmál, að menn veltu fyrir sér ýmsum leiðum. Menn veltu fyrir sér þeirri leið að viðskiptabankarnir þrír mundu leysa til sín eignarhald á þeim banka a.m.k. í fyrstu umferð. Það var aðferð sem ég hlustaði á og vildi skoða. Sú varð ekki niðurstaðan og önnur leið var farin. Ekkert er því sjálfgefið í þessum efnum. Nú eru allir búnir að gleyma því að þegar verðið var 1,40 voru skrifaðar lærðar greinar í verðbréfatímarit og bæklinga um að þetta væri of hátt verð. Maður fer því að efast dálítið um vísindin sem byggt er á í slíkum greinum, enda virðast verða til æði miklir ,,spútnikar`` óvænt á markaði ekki bara hér heldur líka annars staðar. Menn sjá þetta sem sagt ekki fyrir, verðið er dálítið óeiginleg stærð.

Hér hafa menn rætt um aðra þætti. Þetta mál bar þannig að mér að ræða ætti um einkavæðingu, einkum og sér í lagi með hliðsjón af Fjárfestingarbankanum. Ég tók málið þannig. En aðrir hlutir hafa verið nefndir. Menn hafa t.d. rætt um SR-mjöl. Mér er kunnugt um að deilt er um þá aðferð sem þá var viðhöfð og ég tel að um hana megi vissulega deila. Nú tala menn um mjög mikið verðmæti þess fyrirtækis. En staðreyndin var þó sú að fyrirtækið var auglýst til sölu og tilboð bárust hvorki eftir réttum leiðum né á réttum tíma, eins og menn vita, um það var deilt að vísu. En áhuginn á þessu mikla gróðafyrirtæki sem nú er talið virtist ekki vera mikill. Hvernig skyldi nú standa á því? Fyrirtækið hafði iðulega verið í miklu basli og ekki skilað eiganda sínum arði eins og fyrirtækið gerir núna. Menn vissu líka að rekstur þessi var eitt af lífsins lotteríum. Ef loðnan hefði brugðist í 3--4 ár væri þetta fyrirtæki komið lóðbeint á hausinn. (Gripið fram í: En þú þarft peninga til að kaupa.) Síðan kom aftur loðnuvertíð slag í slag í slag, þannig að áhættan sem menn tóku gekk upp. Þetta verða menn að horfa á líka. Allir áttu jafnan rétt, þetta var auglýst og menn áttu allir jafnan rétt, menn höfðu bara ekki trú á fyrirtækinu. Það er staðreynd sem menn verða að horfa á... (Gripið fram í: Þið vissuð þetta, en selduð samt.) Nú skil ég ekki hv. þm., það er náttúrlega ekki í fyrsta skipti. (Forseti hringir.)

Tíma mínum er lokið. Ég vil aðeins að endingu segja vegna þess að rætt hefur verið um Sjálfstfl. og frjálshyggjuna. Árið 1981 bauð Albert Guðmundsson sig fram gegn Geir Hallgrímssyni sem hafði svikið frjálshyggjuna að sögn Alberts. Árið 1979 bauð hann sig síðan fram gegn Sverri Hermannssyni og félögum okkar í Sjálfstfl. vegna þess að nýfrjálshyggjan hafði tekið yfir hjá þeim Sverri (Forseti hringir.) og nú er Sverrir Hermannsson, sem er í orlofi frá Sjálfstfl. nú um hríð, á móti flokknum vegna sömu frjálshyggju.