Reynslusveitarfélög

Mánudaginn 15. nóvember 1999, kl. 17:16:13 (1426)

1999-11-15 17:16:13# 125. lþ. 25.4 fundur 109. mál: #A reynslusveitarfélög# (gildistími o.fl.) frv. 114/1999, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 125. lþ.

[17:16]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þetta reynslusveitarfélagaverkefni sé mjög mikilvægt upp á framtíðarskipulag og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég hef hvatt mjög til þess og beitt mér fyrir því að viðkomandi ráðuneyti komi til móts við sveitarfélögin. Það hefur tekist í sumum tilfellum en í sumum tilfellum ekki.

Varðandi þau verkefni sem sveitarfélög hafa tekið við frá félmrn. þá kannast ég ekki við að neitt áhugaleysi hafi verið hjá embættismönnum ráðuneytisins. Það hafa komið upp viss vandamál. Varðandi yfirtöku fatlaðra þá var það undanskilið, og það var öryggisákvæði ef ekki yrði neitt úr framhaldinu, að þeir sem voru ríkisstarfsmenn héldu áfram á ríkisstarfsmannakjörum þó sveitarfélagið hefði yfirtekið verkefnið. Þetta átti að tryggja réttarstöðu þessara starfsmanna ríkisins sem þarna voru fluttir yfir til ákveðinna sveitarfélaga. Síðan eru nýir starfsmenn að sjálfsögðu ráðnir sem starfsmenn sveitarfélaga. Það hefur komið í ljós nokkurt misræmi á kjörum starfsmanna sveitarfélaga. Það hefur verið gert betur við þá heldur en ríkið hefur gert við sína starfsmenn. Þetta hefur valdið nokkurri óánægju þar sem nýráðnir starfsmenn blautir á bak við eyrun eru kannski komnir í einhverjum tilfellum með hærra kaup en þeir sem hafa mikla reynslu af störfunum.

Að öðru leyti er mér ekki kunnugt um vandamál í þessu efni.