Reynslusveitarfélög

Mánudaginn 15. nóvember 1999, kl. 17:25:43 (1431)

1999-11-15 17:25:43# 125. lþ. 25.4 fundur 109. mál: #A reynslusveitarfélög# (gildistími o.fl.) frv. 114/1999, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 125. lþ.

[17:25]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek það skýrt fram að ég held að við séum á réttri braut með reynslusveitarfélagadæmið. Það er ekkert vafamál. En manni finnst súrt í broti að ekki skuli vera hægt að leggja niður fyrir sér kostnað og stöðu mála, t.d. varðandi launamál.

Ég held að allir hafi gert sér grein fyrir því á sínum tíma að það var gríðarlegur óleystur vandi í pípunum eða uppsafnaður þrýstingur t.d. varðandi laun kennara og e.t.v. laun fleiri stétta. Þegar menn eru að gera breytingar af þessu tagi þá er náttúrlega nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því hver staðan er. Það hefði kannski verið tímaspursmál hvort eð var hvenær t.d. kennarar hefðu fengið leiðréttingu sinna launa þrátt fyrir það að vera í ríkisstarfsmenn. Það er því krafa að þetta sé kortlagt og að menn leggi stöðuna niður fyrir sér.

Ég veit að hlutir hafa gengið vel á Höfn í Hornafirði. En önnur sveitarfélög hafa borið skarðan hlut frá borði og það er mjög bagalegt vegna þess að í þeim tilfellum þar sem ég þekki til er um verulegar upphæðir, tugmilljónir króna, að ræða og þar kemur þetta beint niður á öðrum framkvæmdum og sumum lögboðnum. Í mínu sveitarfélagi t.d., Akureyri, hefur þurft að draga úr öðrum framkvæmdum svo sem gatnagerð, fráveitumálum og öðru slíku. Hér hefur verið staðið þannig að málum, að mínu mati, að ég held að menn hafi ekki sést fyrir og ekki farið í þessar breytingar af þeim myndarskap sem var nauðsynlegur. Ég tek svo djúpt í árinni að ég held að við svona breytingu hefði verið nauðsynlegt að spýta svolítið í lófana og láta meiri fjármuni í þetta til þess að þróa þessi mál áfram fremur en að láta ríkiskerfið stilla sér upp sem harðsvíruðum samningsaðila gagnvart viðkomandi sveitarfélagi.