Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 14:48:31 (2267)

1999-12-03 14:48:31# 125. lþ. 35.12 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[14:48]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Sem oft áður þá hefur hv. þm. ekki gert mjög mikinn greinarmun á mismunandi lífssýn þingmanna. Hann talar um kreddur án rökstuðnings þegar um er að ræða árekstur tveggja hugsjónaheima, þ.e. heims þeirra sem trúa á sameignarstefnu og að allt eigi að vera í sameign og svo hinna sem trúa á einstaklinginn og framtak hans. Ég er ekki að segja að skoðanir hv. þm. séu rangar eða vitlausar. Ég kalla þær heldur ekki kreddur. En ég geri kröfu til þess að hann kalli heldur ekki skoðanir okkar hinna kreddur.

Sú einkavæðing sem átt hefur sér stað, sérstaklega í bönkunum og hlutafjárvæðing, hefur kallað fram mikinn hagnað og það var einmitt einkenni á Íslandsbanka, því hv. þm. nefndi hann, að þar var mikið tap sem varð til þess að margir litlir hluthafar sameinuðust um að koma einum manni inn í stjórn þar og síðan hefur ekki verið tap á þeim banka. Það veitti þáverandi stjórn það mikið aðhald að hún hefur gætt þess að sýna mjög góðan hagnað. Það hefur ekki verið á kostnað starfsmannanna því mér skilst að launin séu ekkert slæm hjá þeim. Það hefur heldur ekki verið á kostnað lántakenda því vaxtamunur hefur farið minnkandi. Þessu er eingöngu náð fram með stórkostlega bættri stjórnun. Og þetta mun gerast hjá ríkisbönkunum líka, jafnt Búnaðarbankanum sem Landsbankanum. Landsbankinn og Búnaðarbankinn hafa þegar náð góðum árangri í stjórnun og það er vegna þrýstings, vegna þess að það stendur fyrir dyrum að einkavæða. Þeir vita það þessir herrar og þeir verða að standa sig í stjórnuninni. Það er því trú okkar sem aðhyllumst trú á einstaklinginn og frumkvæði hans að einkavæðing leiði til betri rekstrar. Og enn hefur ekkert komið í ljós sem afsannar það.