Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 14:52:34 (2269)

1999-12-03 14:52:34# 125. lþ. 35.12 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[14:52]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Eftir þá einkavæðingarhrinu sem yfir hefur gengið er það svo að fleiri tugir þúsunda einstaklinga eiga núna í þessum bönkum sem hafa verið einkavæddir. Þrátt fyrir það að þeim hafi fækkað úr kannski 120 þús. --- ég veit ekki hvað það var nákvæmlega --- þá eiga enn þá fleiri tugir þúsunda einstaklinga í þessum bönkum og munu væntanlega eiga áfram. Ég sé því enga hættu í þessari dreifðu eignaraðild. Svo er það ákaflega óskynsamlegt, eins og ég hef áður nefnt, að eiga t.d. 10% í banka sem er 20 milljarða virði, að setja 2 milljarða, 2 þús. millj. af eignum einstaklings í einn banka. Það væri ákaflega óskynsamlegt því það væri að sjálfsögðu gert með lánsfé og það væri mjög mikil áhætta fyrir viðkomandi einstakling og andstætt allri áhættudreifingu sem að menn eru að ráðleggja. Ég sé því ekki að svona stórar stofnanir geti yfirleitt safnast á fáar hendur nema ef vera skyldu lífeyrissjóðirnir. Og þar komum við að öðrum þætti sem snýr kannski ekki beint að þessu, þ.e. eignarhaldinu og lýðræðinu í lífeyrissjóðunum, á því mikla fé.

En varðandi það að einkavæðingin sé framkvæmd án þess að menn hugsi sig um, þá gengur hún afskaplega hægt. Hún gengur svo hægt jafnvel að ég tel að við höfum ekki undan að einkavæða, að ríkisvæðingin sé meiri en einkavæðingin. Allar þær virkjanir sem hafa verið byggðar að undanförnu, jarðgöng og annað, er allt í eigu ríkisins. Ég nefni flugstöðina. Þetta er allt í eigu ríkisins. Og ég er nærri viss um að á undanförnum fjórum, fimm árum hafi miðað aftur á bak í einkavæðingu, og að ríkisvæðingin sé miklu meiri en einkavæðingin.