Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 15:41:11 (2280)

1999-12-03 15:41:11# 125. lþ. 35.12 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[15:41]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Bara til að undirstrika það þá veit ég ekki til þess að neinar viðræður séu í gangi. Ég hef ekki heyrt af þeim og ef þær eru í gangi þá ættu þær auðvitað að vera opinberar vegna þess að þessi fyrirtæki eru á Verðbréfaþinginu. Ég held hins vegar að aukið framboð bréfa í báðum þessum fyrirtækjum --- það er mjög takmarkað framboð bréfa á markaði þegar við erum bara með 15% af bönkunum á markaðnum sem slíkum --- muni dýpka markaðinn sem slíkan og um leið verðmeta fyrirtækin á annan hátt en þau eru nákvæmlega verðmetin í dag, þ.e. verðmyndunin á fyrirtækjunum yrði að mínu viti eðlilegri en hún er í dag vegna þess að framboðið væri meira og lögmálið um framboð og eftirspurn réði frekar en hið takmarkaða framboð sem er og kannski er eftirspurnin mjög virk út af þeirri umræðu sem hv. þm. er að lýsa og ég hef auðvitað eins og aðrir heyrt um. En ég undirstrika að hún er ekki tilkomin af okkar hálfu.