Aðgerðir gegn ofbeldi og ránum

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 14:23:09 (2314)

1999-12-06 14:23:09# 125. lþ. 36.1 fundur 182#B aðgerðir gegn ofbeldi og ránum# (óundirbúin fsp.), dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[14:23]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þessa ábendingu og deili að sjálfsögðu áhyggjum hans af þessari óheillaþróun varðandi fíkniefnavandann. Alveg óhætt er að segja að þessi mál eru tekin mjög alvarlega. Þannig var mótuð ákveðin stefna í fíkniefnamálum á síðasta kjörtímabili og raunar í fyrsta skipti sem ríkisstjórn mótaði slíka stefnu og henni var fylgt mjög ákveðið eftir.

Það breytir þó ekki því að taka þarf enn betur á. Þetta er margþætt vandamál þar sem inn koma áhyggjur bæði út af löggæslumálum, heilbrigðismálum og félagsmálum. Hins vegar er alveg óhætt að segja að ríkisstjórnin vinnur nú að heildstæðum tillögum til úrbóta á þessu sviði og auknum fjárveitingum til þessa málaflokks.

Rétt er að hv. þm. átti sig á því að það er ekkert nýtt að alvarleg afbrot eins og manndráp tengist ofneyslu áfengis og fíkniefna. Því miður er það algengara. Löggæsla vegna fíkniefnabrota hefur stóraukist á síðustu árum eins og sjá má á stórum málum sem nú eru til rannsóknar hjá lögreglu. Hins vegar má benda á að það getur skapað ákveðið vandamál. Við stóraukna löggæslu eykst vandi fíkniefnaneytenda enn frekar vegna þess að framboð efna á markaðnum minnkar, verðið hækkar og fjárþörfin eykst þar með hjá fíkniefnaneytendum.

Það er svo sannarlega ástæða til að taka enn ákveðnar á þessum málum. Ég bendi á, vegna þess að talað var um gæsluvarðhald, að ég er á þeirri skoðun að í auknum mæli eigi að fá heimildir til þess að óska eftir gæsluvarðhaldi yfir mönnum sem stunda síbrot og hafa langan lista af uppsöfnuðum afbrotum. Slík síbrotagæsla leysir hins vegar ekki öll vandamál heldur aðeins afmarkaðan hluta.