Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 15:50:38 (2345)

1999-12-06 15:50:38# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[15:50]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Aðeins út af því að hv. þm. vitnaði í viðbrögð hæstv. félmrh. við þessu frv., þá snerist sú gagnrýni sem ég sá frá hæstv. ráðherra eingöngu um það að þessu frv. fylgdi ekki einhver milljarður í peningum sem hann taldi að hefði átt að fylgja færslu Byggðastofnunar. Þessi milljarður, eða hvaða tala sem er, á auðvitað ekki heima í þessu frv. Þetta er frv. um stjórnsýslu Byggðastofnunar. Allar fjárveitingar til stofnunarinnar koma að sjálfsögðu á fjárlögum og eiga ekki heima í þessu frv.

Hv. þm. talaði eins og fleiri um að verið sé að færa málaflokkinn frá Sjálfstfl. til Framsfl. Samfylkingin er kannski búin að sætta sig við að þessir flokkar stjórni landinu um alla framtíð og best væri það auðvitað fyrir landsmenn. Ég er ekki alveg svona bjartsýnn, en vonandi verður það.

Hann taldi líka að ekki væri verið að leita leiða til að styrkja stofnunina. Ég er ósammála því. Það er verið að leggja höfuðáherslu á að styrkja atvinnuþátt stofnunarinnar og ég gat um það hér áðan að allir viðmælendur þeirrar nefndar sem samdi þetta frv., líklega á annað hundrað manns, nánast allir lögðu áherslu á að þetta væri mál málanna, ekki hvernig kosið yrði í stjórn stofnunarinnar eða hvaða ráðuneyti hún væri vistuð í, heldur að það yrði að styrkja þennan þátt í starfseminni, samhæfa atvinnuþróunarstarfið í landinu og koma á tengingu. Hér er vitnað í stjórnarformann Byggðastofnunar, að hann óttist það að Iðntæknistofnun ætli eitthvað að fara að rassakastast í atvinnuráðgjöfunum á landsbyggðinni. Ég segi bara, auðvitað á að vera sem allra mest og best samband þar á milli. Það styrkir bara atvinnuráðgjafana ef þeir eru í góðu sambandi við Iðntæknistofnun því að við eigum ekki að líta á Iðntæknistofnun sem neinn óvin Byggðastofnunar. Iðntæknistofnun er að gera marga stórkostlega góða hluti og það mun bara styrkja þetta starf ef hún kemur þar að málum. Það er náttúrlega alveg út í hött að halda því fram að til standi að færa atvinnuþróunarstarfið af landsbyggðinni til Reykjavíkur. Byggðastofnun er búin að breyta þessari áherslu þannig að atvinnuþróunarstarfið er allt komið í hendur heimamanna. Það verða settar á annað hundrað millj. í atvinnuþróunarstarfið á landsbyggðinni á næsta ári sem allt verður á forræði heimamanna.

Ég hef víst ekki tíma til að nefna fleiri atriði núna. Ég kem aftur á eftir.