Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 17:33:11 (2370)

1999-12-06 17:33:11# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[17:33]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Mér þótti nú húmor í nafna mínum, hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni, þegar hann sagði að hæstv. iðnrh. yrði eiginlega stjórnarformaður í Byggðastofnun. Hv. þm. bætti svo um betur, sagði að hann yrði sama sem forstjóri. Þetta held ég að sé mikil oftúlkun. Ég sit reyndar í einni stjórn sem valin er af hæstv. iðnrh. og hann hefur aldrei skipt sér neitt af störfum þeirrar stjórnar. Menn mega ekki mála skrattann á vegginn.

Talið um stjórnarkjörið er ofarlega í mönnum. Ég hef áður sagt að af öllum þeim tugum, líklega hundrað viðmælendum sem nefndin ræddi við um þetta frv. og framtíð Byggðastofnunar, þá minntist enginn á stjórnarkjörið. Enginn hafði áhuga á því. Ég held að kannski sé það aðallega hér á Alþingi sem menn hafa áhyggjur af því. Ef þetta stendur upp úr í umræðunum og veldur mönnum angri má einfaldlega breyta því í meðförum þingnefndar.

Hv. þm. talaði líka um tillögurnar, að þessi stofnun mundi ekki geta gert tillögur um hina ýmsu málaflokka eftir að hún væri komin inn á eitt atvinnuvegaráðuneyti. Auðvitað mun stjórn Byggðastofnunar vinna nákvæmlega eins eftir sem áður og gera tillögur um allt sem lýtur að málefnum landsbyggðarinnar. Ég held að það breytist ekkert þó að hún færist á milli ráðherra.

Ég tek undir það sem hv. þm. sagði um lánastarfsemi Byggðastofnunar. Ég hef orðið var við almenna ánægju með hana og það kom mjög skýrt fram hjá þeim fjölda sem við töluðum við í nefndarstarfinu. Menn vildu alls ekki að bakkað yrði með þá starfsemi og töldu að hún hefði gert mikið gagn á landsbyggðinni, sérstaklega fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem eru einfaldlega út undan hjá bankakerfinu í dag. Stóru fyrirtækin á landsbyggðinni virðast geta gengið að góðri bankafyrirgreiðslu en hin ekki. Þau þurfa á því að halda að Byggðastofnun haldi velli í lánastarfseminni. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því.